Ísland er í 65. sæti á nýjum lista Fraser-stofnunarinnar sem sýnir samanburð á atvinnufrelsi þjóða í formi svonefndrar frelsisvísitölu. Útgáfan núna tekur til ársins 2010, en Ísland hefur fallið mikið á listanum, bæði þegar horft er til stöðu á listanum í samanburði við aðrar þjóðir og útfrá einkunn sem gefin er.
Stofnunin skoðar stöðu atvinnufrelsis í 143 löndum í þetta skiptið við útreikning á frelsisvísitölunni. Litið er til 38 þátta í fimm höfuðflokkum en þeir eru: Umfang hins opinbera, lagaumhverfi og verndun eignarréttarins, aðgengi að traustum gjaldmiðli, frelsi til alþjóðaviðskipta og reglur um fjármálamarkaði, vinnuafl og fyrirtæki.
Um aldarmótin var Ísland í 12. sæti með 7,80 stig af 10 mögulegum í þessari könnun og hélt svipaðri stöðu til ársins 2006 þegar halla fór undan fæti. Við hrunið minnkaði atvinnufrelsið hérlendis mikið og árið 2009 var Ísland fyrir miðju í 70. sæti af 141 ríki sem voru til skoðunar, með 6,80 stig. Í ár réttir Ísland sig nokkuð við og er með 7,06 stig.
Á kynningarfundi á vegum Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags- og efnahagsmál í morgun var ætlunin að dr. Michael Walker, stofnandi Fraser-stofnunarinnar og einn af upphafsmönnum frelsisvísitölunnar ásamt Milton og Rose Friedman, myndi flytja erindi í eigin persónu. Walker hafði þó lent í vandræðum með að finna eigið vegabréf og því varð svo úr að hann flytti erindið í gegnum tölubúnað fyrir fundagesti.
Ísland er sem fyrr segir í 65. sæti í heildina, en þegar horft er á hvern af höfuðflokkunum fimm má sjá að styrkleikar og veikleikar eru mjög mismunandi eftir sviðum. T.d. lendir Ísland í 130. sæti þegar kemur að umfangi hins opinbera og 118. sæti í flokknum um frelsi til alþjóðaviðskipta. Í aðgengi að traustum gjaldmiðli erum við svo nær miðjunni í 71. sæti og í 48. sæti þegar kemur að regluverki fjármálamarkaðar, vinnuafls og fyrirtækja. Lagaumhverfi og verndun eignarréttar sker sig nokkuð úr, en þar lendir Ísland í 8. sæti.
Walker segir að á síðustu 10 árum hafi staða Íslands í sjálfu sér ekki breyst mjög mikið. Aftur á móti hafi önnur ríki bætt sig töluvert og skilið Ísland eftir neðar. Meðal annars hafi Ísland verið á lista yfir 10 efstu löndin fimm sinnum frá 2001 til 2006, en síðan þá lækkað nokkuð hratt. Hann segir að þar skipti mestu máli efnahagshrunið og þær leiðir sem valið hafi verið að fara í kjölfarið. Tiltekur hann einnig þá mismunun sem verði til þegar ákveðnir vöruflokkar eða atvinnuvegir fái mismunandi skattlagningu og að „sigurvegarinn“ sé þannig valinn gegnum skattlagningu frekar en vilja kaupenda.
Umfang og skuldasöfnun ríkisins er að mati hans einnig orsök fyrir slakara gengi Íslands á síðustu árum í vísitölunni, auk þess sem peningastefna Seðlabankans hafi ekki gengið upp og að skattkerfið hér sé enn of flókið og skattar og tollar of háir. Walker tók dæmi af öðrum smáríkjum þar sem peningastefnan hefði verið skilvirkari og taldi ekki að krónan væri orsakavaldur að efnahagshruninu hérlendis. Ítrekaði hann margsinnis að peningastjórn hérlendis væri ábótavant og að verðbólgan hefði gegnum tíðina verið of mikil og sýndi fram á efnahagslega óstjórn.
Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri GAMMA, fór í framhaldi af erindi Walkers yfir það hvaða þýðingu þessi lækkun hefði á íslenskt efnahagslíf. Nefndi hann að mæling á hagvexti ríkja hefði sýnt fram á að með lækkun um 1 stig hefði hagvöxtur að jafnaði lækkað um 1 til 1,5% á ári. Miðað við að Ísland hefði á síðustu 10 árum farið niður um 0,98 stig mætti því áætla að hagvöxtur Íslands væri 0,98 til 1,47 prósentustigum lægri en hann gæti verið. Þau lönd sem skora hátt í frelsisvísitölunni hafi einnig meiri landsframleiðslu, minni ungbarnadauða og að lægst launuðu aðilar þeirra ríkja þar sem mest frelsi er hafi að jafnaði mun hærri tekjur en í löndum sem lendi neðar á listanum.
Aðspurður um hvort vísitalan væri pólitísk og að hún væri að draga taum frjálshyggjunnar umfram aðra hugmyndafræði, sagði Gísli að þetta væri hagfræðivísitala sem hefði það meginmarkmið að sýna skilvirkni hagkerfa og ríkisvalds. Nefndi hann sem dæmi að Norðurlöndin kæmust öll, að Íslandi undanskildu, í 30 efstu sætin, þrátt fyrir að ríkisvaldið þar hafi oft verið talið nokkuð stórt. Walker tók undir það og benti á að vísitalan væri einungis gerð út frá gögnum sem öllum væru aðgengileg og því ætti hún að vera mjög gegnsæ.