Óskýrir skilmálar fyrir stafrænt efni

Fyrir stuttu síðan komu fram fréttir þess efnis að leikarinn Bruce Willis væri í málaferlum við Apple þar sem notendaskilmálar iTunes gerðu viðskiptavinum óheimilt að dreifa tónlist sem keypt væri, þar sem þær væru aðeins fengnar að láni. Var sagt frá því að Willis teldi þetta koma í veg fyrir að hann gæti arfleitt dætur sínar að stóru tónlistarsafni sem hann hefði safnað upp og við það væri hann ekki sáttur.

Fljótlega kom þó í ljós að fréttin var uppspuni, en hún vekur engu að síður upp áhugaverðar spurningar um fyrirkomulag þessara mála hérlendis og hvort fólk sé eigandi eða leigjandi að tónlist sem það telur sig kaupa á netinu. Hingað til hefur fólk safnað tónlist á geisladiskum, plötum eða öðru sem hægt er að meðhöndla og selja áfram. 

Skilmálar ekki skýrir

Nærtækast er að skoða skilmála tónlistarvefsins tonlist.is sem er í eigu D3, en það er dótturfélag Senu. Í skilmálum síðunnar kemur meðal annars eftirfarandi fram: „D3 veitir þér takmarkaðan, óframseljanlegan, afturkallanlegan rétt, sem ekki er einkaréttur, til að móttaka með því að streyma, niðurhala og/eða afrita, eftir því sem við á tónlist á einkatölvu þinni eða öðrum miðlum eins og leyft er skv. notkunarreglum. Þú gerir þér ljóst og samþykkir að þér er óheimilt sækja, endurgera, breyta, birta, flytja, yfirfæra, dreifa eða nota á annan hátt lög eða efni nema í samræmi við það sem skýrt er kveðið á um í samningi þessum. Þú gerir þér ljóst og samþykkir að þér leyfist ekki að heimila, hvetja til eða láta viðgangast endurgerð, breytingu, birtingu, flutning, yfirfærslu, dreifingu eða aðra notkun þriðja aðila á lögum eða efni sem þú notar eða nærð í,“

Í þessum texta eru tvö atriði sem gætu átt við fyrrnefnt dæmi um leikarann. Í fyrsta lagi þegar talað er um afturkallanlegan rétt, sem ekki er einkaréttur og hins vegar þegar tiltekið er að fólki sé ekki leyfilegt að flytja, yfirfæra eða stuðla að notkun þriðja aðila að tónlistinni.

Eintökin eru eign

Aðspurð um málið sagði Hulda Árnadóttir, hæstaréttarlögmaður hjá Lex lögmannsstofu, en hún hefur meðal annars sérhæft sig í eignar- og hugverkarétti, að þar sem eintakagerð til einkanota væri leyfð í skilmálunum, ef notandi hefði keypt þjónustu sem innifæli slíkt, teldi hún það ósennilega fela í sér brot þó aðrir heimilismenn nýti efni sem þannig háttar til um til einkanota. Sagði hún það vera í samræmi við túlkun ákvæða höfundalaga um eintakagerð til einkanota. Hún tók þó fram að ákvæði um að óheimilt væri að veita öðrum notendanafn og lykilorð af áskriftarreikning fæli í sér eðlilega takmörkun á rétti notanda.

Með þessum skilningi segir hún eintök af höfundaverkum sem keypt eru á síðunni í raun eign viðkomandi og því séu þau sem slík væntanlega erfanleg við andlát viðkomandi líkt og önnur eintök af höfundaverkum í hans eigu. Hulda segir þó ekki óeðlilegt að fyrirtækið girði fyrir að notandi framselji aðgang sinn að þjónustunni sem slíkri, þ.e. réttinn til að vafra, streyma, niðurhala, brenna eða yfirfæra efnið. Segir hún það hins vegar mega vera skýrara í skilmálunum.

Munu endurskoða skilmálana

Engilbert Hafsteinsson, framkvæmdastjóri D3, rekstraraðila tonlist.is, sagði í samtali við mbl.is að nýjar spurningar komi upp á hverjum degi tengdar tækni og stafrænni tónlist. Þetta sé atriði sem ekki hafi verið skoðað, en að fyrirtækið hafi ávallt litið svo á að sömu lögmál gildi um kaup tónlistar á netinu eins og á öðru formi og því sé heimilt að láta erfingjum í té efnið komi til andláts notanda. Hann tók fram að eftir þessa umræðu myndi fyrirtækið skoða skilmálana betur þar sem þessir hlutir verði skýrðir nánar. Kaupanda sé þó eftir sem áður ekki frjálst að selja né breyta efni eftir að það hefur verið keypt.

Er stafrænt efni raunveruleg eign?

Þetta vekur upp spurningar um það hvort kaup á rafrænu efni búi til raunverulega eign eða hvort það sé aðeins notkunarrétturinn sem framseljist t.d. við andlát. Hingað til hefur fólk keypt efni á geisladiskum og plötum og átt eintakið. Það hafi svo getað ráðstafað því eintaki hvernig sem það vill, t.d. með að selja áfram í þar til gerðar búðir sem versli með notað efni. Samkvæmt skilmálum tonlist.is er virðist í fljótu bragði óljóst hvort hið sama gildi um eintök af því efni sem þar er keypt og segir Hulda að sér sé ekki kunnugt um að reynt hafi á það. Það sé því örðugt að svara því hvernig með skulið farið í slíkum tilvikum fyrr en á reynir.

Það er spurning hver er raunverulegur eigandi tónlistar sem er …
Það er spurning hver er raunverulegur eigandi tónlistar sem er keypt í gegnum netið árvakur/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK