Hagfræðideild Landsbankans spáir því að vísitala neysluverðs muni hækka um 0,7% milli mánaða nú í september og að ársverðbólgan fari úr 4,1% upp í 4,2%. Hagstofan mun í næstu viku birta vísitölumælingu fyrir september og hafa greiningardeildir og aðrir opinberir aðilar á síðustu dögum birt spá sína. Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir 0,7% hækkun eins og Landsbankinn, en Íslandsbanki spáir 0,8% hækkun.
Allir aðilar telja útsölulok og veikingu krónunnar aðalástæður fyrir hækkuninni, en þar spilar hækkandi eldsneytisverð vegna gengisins einnig inn í. Þeir telja að lítið hækkandi fasteignaverð muni ekki hafa áhrif í þetta skiptið vegna lækkandi vaxta. Þegar litið er til næstu mánaða telja allir aðilar að veiking krónunnar muni enn auka á verðbólguþrýstinginn og að í lok ársins verði ársverðbólgan á bilinu 4,5% upp í 4,7%, en greiningardeild Íslandsbanka sker sig úr og er 0,2 prósentustigum hærri en hinir bankarnir.