„Innan fárra ára munu 2 milljónir ferðamanna koma hingað til lands. Við þurfum að sameinast um þjóðaráætlun til að taka vel á móti þeim, en að vera okkur sjálfum líka til hagsbóta. Tilviljun má ekki ráða för og ekki heldur deilur okkar á milli eða skak.“ Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í inngangsræðu sinni á 75 ára afmælisráðstefnu Icelandair Group sem nú er í gangi. Sagðist hann sannfærður um að þetta væri sá raunveruleiki sem koma skuli og að hann væri alls ekki of fjarlægur.
Sagði Ólafur að Ísland væri orðið að „viðkomustað á veraldarvísu“ og nefndi í því samhengi aukna ásókn gesta frá Asíu, þar á meðal Kína og Indlandi, sem hann sagði að hefðu með aðstoð þriggja ókeypis herferða fengið aukinn áhuga á landi og þjóð. Herferðirnar sem hann vísaði til voru bankahrunið og gosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum, sem auðvitað voru ekki pantaðar, en hefðu engu að síður haft þau áhrif að áhugi á og vitund erlendra ferðamanna um Ísland jókst. Nýir áfangastaðir í Pétursborg og Alaska hefðu einnig enn frekar opnað Ísland sem stað í alfaraleið í hinu nýja norðri.
Til að taka á móti öllum þessum ferðamönnum sagði Ólafur mjög mikilvægt að mynda heildstæða umgjörð þar sem gjörvalt Ísland gæti verið vettvangur ævintýra fyrir gesti. Nefndi hann til dæmis að fyrir 10 árum hefði örugglega fáum fyrir vestan dottið í hug að fullfermi af Þjóðverjum myndi heimsækja Suðureyri til að fara á sjóstöng og halda þar til í heila viku og fara af landi brott alsælir með ferðina. Einnig hafi miklar efasemdir verið um viðkomu skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar fyrir nokkrum árum, en í dag skipi þetta stóran sess í ferðamennsku þar í bæ og lífgi mikið upp á bæjarlífið.
Ólafur lagði einnig áherslu á að aðilar í ferðamannageiranum myndu reyna að sjá Ísland með augum ferðamanna og að tækifæri væru fundin sem gætu dreift álaginu yfir lengra tímabil. Til dæmis hafi fjölmargir heimsótt Hellisheiðavirkjun vegna áhuga á grænni orku, þótt Íslendingum þætti slík heimsókn oft og tíðum lítið áhugaverð.