Rio Tinto Alcan í Straumsvík tilkynnti um uppsögn 13 starfsmanna í gær í kjölfar erfiðs rekstrar á árinu, en fyrirtækið hefur tapað um 500 milljónum það sem af er ári. Sagði Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Alcan, að óvissa væri á mörkuðum og að spara þyrfti í rekstri.
Önnur álfyrirtæki virðast ekki ætla að fara sömu leið, en Ágúst Hafberg, upplýsingafulltrúi Norðuráls, sagði í samtali við mbl.is að ekki væri að vænta uppsagna hjá fyrirtækinu. „Framleiðslan gengur vel. Við finnum fyrir verðlækkunum en engar mannabreytingar eru í kortunum hjá okkur.“ Erna Indriðadóttir hjá Alcoa tók í svipaðan streng og sagði að engin áform væru uppi um uppsagnir. Engu að síður var rúmlega 250 milljón króna tap af rekstri fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi, eins og sjá má á heimasíðu Alcoa, og því ljóst að sveiflukennt álverð hefur að einhverju leyti komið niður á fyrirtækinu.
Frá því í mars hefur leitni álverðs verið niður á við, ef frá er talin mikil hækkun núna í september þegar verðið fór upp um tæplega 17%. Þá léku tilkynningar frá kínverskum stjórnvöldum um að setja aukna fjármuni í uppbyggingu innviða samfélagsins og frá seðlabanka Bandaríkjanna um uppkaup á fasteignaverðbréfum til að koma hagkerfinu í gang stórt hlutverk. Sú hækkun hefur aftur á móti gengið núna aðeins til baka síðustu daga og samkvæmt spám erlendra markaðsaðila er gert ráð fyrir að verð fari niður í um 2000 til 2100 Bandaríkjadollara á tonnið fram næsta ár.
Sigurður Ottó Þorvarðarson, sérfræðingur hjá IFS greiningu, segir að svona sveiflur séu algengar á hrávörumarkaði og sérstaklega með álverð. Það skýrist af því að álnotkun sé oft tengd við neysluvörur og eftirspurn þeirra geti sveiflast auðveldlega í takt við væntingar og aðrar skammtímasveiflur á markaði. Því sé sú 15% hækkun sem varð um daginn ekkert óeðlileg, en hann gerir jafnframt ráð fyrir því að verð fari örlítið lækkandi á næstunni en haldist svo yfir 2000 dollurum á tonnið í nokkurn tíma.
Segir hann að álbirgðir hafi aukist nokkuð síðustu mánuði, en að slegið hafi verið á mikið umframframboð með niðurskurði og samdrætti í framleiðslu. Þar á meðal ætli stærsti álframleiðandi í heimi, Rusal, að skera framleiðsluna niður um 150 þúsund tonn á þessu ári og samtals um 275 þúsund tonn fram til ársins 2018. Miðað við þessar spár ætti því álverð að haldast nokkuð stöðugt út næsta ár.