Fyrr í dag var greint frá því að meirihluti landsmanna væri hlynntur aðskilnaði viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Í samtali mbl.is við Pétur Einarsson, forstjóra Straums fjárfestingarbanka, sem óskaði eftir gerð könnunarinnar, segir hann að „almenningur hér á landi er í engum vafa um að fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi á ekki heima saman.“
Pétur hefur verið einn af helstu talsmönnum breytinga á þessu sviði og hélt meðal annars erindi á fundi Félags viðskipta- og hagfræðinga um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbanka í Hörpunni í síðasta mánuði. Þar varaði hann við því að ef ekki yrði gripið til lagasetningar sem myndi aðskilja þessa starfsemi yrðu bankarnir aftur of stórir og gætu orsakað annað hrun.
Í samtali við mbl.is segir Pétur að með núverandi kerfi séu allir peningar í fjármálakerfinu geymdir inni í viðskiptabönkum og séu þar með með beina eða óbeina ábyrgð skattgreiðenda. Á sama tíma geti bankinn stundað „áhættusaman bankarekstur eins og verðbréfamiðlun, eigin viðskipti eða fyrirtækjaráðgjöf“. Pétur telur að þessi tvö form eigi ekki heima saman og segir hann að málið hafi töluvert fylgi innan þings þar sem þingmenn frá öllum flokkum, utan Sjálfstæðisflokksins, hafi staðið á bak við þingsályktunartillögu sem segir að skilja eigi að viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi.
„Það eru nánast upp á dag núna fjögur ár frá hruni og við erum rétt að byrja að skoða raunverulegar ástæður og hvernig við getum breytt kerfinu þannig að þetta gerist ekki aftur,“ segir Pétur og bætir við að það séu vonbrigði hvað þetta hafi tekið langan tíma. Hann sé þó bjartsýnn núna og gerir ráð fyrir að eitthvað fari að gerast í málinu.
Andstæðingar aðskilnaðar hafa meðal annars bent á að það muni leiða af sér aukinn kostnað í bankaviðskiptum. Þeir segja að endurfjármögnun banka sem aðeins er viðskiptabanki verði dýrari þar sem lánveitendur sjái fyrir sér meiri áhættu í að lána bönkum þar sem innistæðueigendur hafi fullan forgangsrétt.
Pétur segir aftur á móti að margir stórir viðskiptabankar fái háa lánshæfiseinkunn einmitt vegna þess að það sé ekki mikil áhætta til staðar og það ætti alltaf að leiða til minni kostnaðar fyrir bankana, auk þess sem aðskilnaður muni draga úr áhættu fyrir skattgreiðendur og ríkið sem ekki muni vera í ábyrgð fyrir áhættufjárfestingar. Segir Pétur þetta einnig minnka hagsmunatengsl og ýta undir óháða ráðgjöf sem fyrirtæki og fjárfestar vilji frekar sækja í.
Í næsta mánuði mun nefnd, sem á að skoða tillögur um skipulag fjármálakerfisins, skila áliti til Alþingis, en Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, fer fyrir nefndinni. Segist Pétur búast við því að niðurstaðan verði varfærnisleg og að aðeins verði lagt til aukið eftirlit, en að skrefið verði ekki stigið til fulls. „Ég vona að stjórnmálamenn taki af skarið og fari í þessa breytingu“ segir hann að lokum.