Kjarasamningum sagt upp hjá Cargolux

Boeing 747-8 undir merkjum Cargolux.
Boeing 747-8 undir merkjum Cargolux. The Boeing Company

Fraktflutningaflugfélagið Cargolux í Lúxemborg hefur einhliða sagt upp kjarasamningum við starfsmenn fyrirtækisins og gefið þeim þann kost að semja aftur eða taka pokann sinn. Þetta kemur í framhaldi af fréttum þess efnist að fyrirtækið hafi verið rekið með tapi síðustu 2 árin vegna slæms ástands á Evrópumarkaðinum. Þetta kemur fram í umfjöllunum Luxemburger Wort um félagið. Cargolux hefur síðan 2010 skipt tvisvar um forstjóra, en nýr forstjóri, Richard Forson, tók við í júlí eftir að Quatar Airways keypti rúman þriðjung í félaginu.

Stofnað af Íslendingum

Cargolux var stofnað 1970 og var íslenska flugfélagið Loftleiðir meðal eigenda félagsins. Flugleiðir áttu síðan hlut í félaginu en hann var seldur 1986.  Margir íslenskir flugmenn og flugvirkjar starfa enn hjá Cargolux, en gegnum tíðina hefur mikill fjöldi Íslendinga starfað hjá félaginu.

Síðustu misseri hafa ekki verið góð hjá flugfélaginu, en í lok árs 2010 var félagið, ásamt 10 öðrum flugfélögum, sektað um 119 milljónir Bandaríkjadollara fyrir verðsamráð og sitja nú bæði fyrrverandi forstjóri og sölustjóri félagsins í fangelsi vegna þess. Í kjölfarið settist Frank Reimen í forstjórastólinn en eftir að flugfélagið frá Katar keypti stóran hlut í félaginu í sumar var hann látinn fara og Forson tók við. Í fyrra tapaði félagið 13,7 milljónum evra.

Kjarasamningum sagt upp

Samkvæmt Luxemburger Wort komu strax upp miklar efasemdir hjá verkaðlýðsfélögum vegna kaupanna og þegar spurðist út að Quatar Airways væri í viðræðum um kaupin fóru þau strax fram á tryggingu þess efnis að staðið yrði við kjör og aðbúnað starfsfólksins. Það virðist ekki mikið hafa farið fyrir slíku, því fyrir helgi hélt forstjórinn fund með starfsfólki félagsins og tilkynnti því að kjarasamningum væri einhliða sagt upp og að fólk yrði samningslaust um næstu áramót. Ætli fólk að halda vinnunni þurfi það að semja við félagið upp á nýtt á lægri kjörum og með meira vinnuframlagi.

Verkaðlýðsfélagið LCGB í Lúxemborg hefur harðlega gagnrýnt Cargolux fyrir þessar uppsagnir og sagt að félagið beri enga virðingu fyrir hefðum milli aðila á vinnumarkaðinum þarlendis. Segir jafnframt að sú breyting sem sé boðuð bæði í launum og vinnuframlagi sé ekki á pari við samkomulag milli atvinnulífsins og vinnumarkaðarins og muni ýta undir félagsleg átök.

Mögulegar breytingar á skoðunar- og viðhaldsþjónustu

Fyrr í vikunni hafði Forson sagt í viðtali við dagblaðið Tageblatt að staðan í Evrópu væri mjög erfið í kjölfar fjármálaóstöðuleikans og að ýmislegt þyrfti að gera til að koma Cargolux aftur á réttan kjöl. Gaf hann meðal annars í skyn að ekki væri verið að fullnýta skoðunar- og viðhaldsþjónustu þar sem hún væri ekki samkeppnishæf við það sem gerist í Asíu. Árið 2009 tók Cargolux í notkun nýtt flugskýli sem er 200 metra langt, 90 metrar á breidd og 42 metra hátt og getur það hýst tvær Boeing 747-flugvélar.

Einnig nefndi hann að flutningamiðstöðvar væru alltaf að færast sunnar og að ef Cargolux myndi ekki finna upp nýja markaðsáætlun væri ekki útlit fyrir það að lifa af í breyttu landslagi.

Efnisorð: Cargolux flug
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK