46 missa vinnuna hjá Europris

Frá verslun Europris á Fiskislóð.
Frá verslun Europris á Fiskislóð. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Vaxandi samkeppni og erfiðleikar í rekstri eru meðal annars ástæðurnar fyrir því að ákvörðun hefur verið tekin um að hætta starfsemi verslana Europris á Íslandi. Þetta segir Petter Wilskow, lögfræðingur hjá Europris í Noregi og stjórnarmaður í Europris á Íslandi, í samtali við mbl.is.

„Reksturinn hefur verið erfiður á Íslandi og við höfum ákveðið að einbeita okkur að rekstrinum í Noregi. Það er meginástæðan fyrir þessari ákvörðun,“ segir Wilskow. Spurður hvort tekjurnar af verslununum á Íslandi hafi verið að dragast saman kveður hann já við.

„Já, þær hafa verið að dragast saman og samkeppnin er einnig mun harðari á Íslandi. Margar verslanir eru að selja hliðstæðar vörur og svo framvegis,“ segir hann ennfremur. Þá hafi einnig komið nýir eigendur að Europris í mars á þessu ári með nýjar áherslur og þar á meðal að leggja áherslu á starfsemina í Noregi.

Wilskow bendir á að Europris hafi fyrir nokkrum árum lokað verslunum sínum í Svíþjóð og nú sé ætlunin að hætta starfsemi á Íslandi en fyrirtækið hefur ekki verið með starfsemi í öðrum löndum. „Núna ætlum við bara að einbeita okkur að Noregi.“

Spurður hversu margir munu missa vinnuna á Íslandi vegna lokurnar þeirra þriggja verslana sem Europris hefur rekið undanfarið hér á landi segir Wilskow að 46 manns missi vinnuna. Þegar mest var rak fyrirtækið sex verslanir hér á landi.

Wilskow segir að reksturinn hafi gengið illa eftir efnahagshrunið á Íslandi. Fyrir hrun hafi verslanir Europris á Íslandi verið reknar með sérleyfi (e. franchise) frá Europris en fyrirtækið hafi tekið yfir reksturinn í kjölfar hrunsins.

Frétt mbl.is: Europris hættir starfsemi á Íslandi

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka