Facebook snýr vörn í sókn

Facebook hefur snúið vörn í sókn og hefur kynnt ýmsar …
Facebook hefur snúið vörn í sókn og hefur kynnt ýmsar breytingar varðandi auglýsingar gegnum síðuna. AFP

Facebook hefur á síðustu mánuðum verið að taka fyrstu skrefin til að koma til móts við kröfur fjárfesta um auknar tekjur og betri nýtingu á persónulegum upplýsingum, sem vefsíðan býr yfir, til að miða út væntanlega kaupendur. Meðal leiða sem Facebook hefur farið er að leyfa auglýsendum að beina skilaboðum sínum á ákveðin tölvupóstföng eða símanúmer, sem auglýsandinn leggur fram. Þetta er meðal þess sem kemur fram í frétt The Wall Street Journal um málið.

Efasemdir um ágæti Facebook

Eftir að Facebook var skráð á markað fyrr í ár á genginu 38 dollarar á hlut hefur virði bréfanna minnkað mikið. Lægst fóru þau niður í tæplega 18 dollara, en hafa síðan þá hækkað í 22 dollara á hlut. Þessi mikla lækkun er að einhverju leyti tilkomin vegna efasemda fjárfesta um að Facebook geti staðið undir þeim væntingum sem gerðar eru til fyrirtækisins varðandi auglýsingatekjur og að geta nýtt sér allar þær upplýsingar sem notendur setja sjálfir inn á síðuna til að tengja saman auglýsendur og væntanlega kaupendur. 

Þá hafa einnig verið uppi nokkrar efasemdir um að auglýsingar á síðunni skili sér í raunverulegri söluaukningu og hingað til hefur verið nokkuð erfitt fyrir Facebook að sýna fram á það, en mikil vinna hefur verið lögð í þessa rannsóknarvinnu upp á síðkastið.

Nýjar auglýsingaleiðir

Í dag geta auglýsendur á mun áhrifaríkari hátt beint auglýsingum sínum til notenda síðunnar. Í frétt The Wall Street Journal er meðal annars bent á að auglýsendur geta komið með lista yfir tölvupóstföng eða símanúmer notenda sem þeir vilja beina auglýsingu til. Þetta er meðal annars hægt með því að notast við upplýsingar úr vildarkerfum eða öðrum stöðum þar sem notendur hafa gefið upp persónuupplýsingar til fyrirtækja. Með þessu nær bæði fyrirtækið að auglýsa til áhugasamari markhóps, auk þess sem Facebook fær betri yfirsýn yfir það hversu mikið auglýsingar á vefnum skila í sölu út í búð.

Í sumar hóf Facebook að auglýsa í gegnum þriðja aðila, eins og hjá leikjafyrirtækinu Zynga. Notast Facebook þá við upplýsingar af eigin vef til að finna auglýsingar sem passa áhugasviði notandans.

Gagnrýni neytendahópa

Margir neytendahópar hafa gagnrýnt þessa aðferð og sagt að hún brjóti í bága við samning sem gerður var milli Facebook og löggjafans fyrr á árinu um meðferð persónuupplýsinga. Talsmaður Facebook segir aftur á móti að einkalíf viðskiptavinanna sé alltaf tryggt og auglýsendur fái aldrei að sjá gögnin beint.

Facebook hefur einnig tengt auglýsingar við umferð notenda á öðrum síðum. Sem dæmi notaðist Shoebuy við þessa aðferð og lét auglýsingar aðeins birtast hjá notendum sem höfðu áður skoðað skó eða skóverslanir á netinu. Jafnvel voru auglýsingar með sömu skóm og fólk hafði áður skoðað birtar. Í því tilfelli notaðist Facebook reyndar ekki aðeins við eigin gögn, heldur fékk markaðsfyrirtækið TellApart Inc. til að finna út hvenær facebooknotendur skoðuðu einnig skóverslanir.

Fjárfestar ánægðir

Hingað til hefur Facebook verið mikið milli tannanna á þeim hópum sem tala fyrir vernd persónuupplýsinga. Með nýjasta útspili síðunnar er áhugavert að sjá hvort brugðist verði við því. Fjárfestar virðast allavega vera nokkuð sáttir við skrefin sem hafa verið tekin, en bréf fyrirtækisins hafa hækkað um rúmlega 20% síðasta mánuðinn.

Efnisorð: auglýsingar Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK