Tillögur Samtaka atvinnulífsins draga úr framkvæmd samkeppnislaga og færa ábyrgð markaðsráðandi fyrirtækja yfir á Samkeppnisyfirlitið og eru til þess fallnar að vinna að hagsmunum stórra og markaðsráðandi fyrirtækja á kostnað minni og meðalstórra fyrirtækja. Þetta sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins á fundi Samtaka atvinnulífsins um samkeppnismál fyrr í dag.
Tók hann undir áhyggjur samtakanna um langa málameðferð og sagði, í samtali við mbl.is, tvö atriði skipta þar stærstu máli. „Það sem veldur okkur áhyggjum er tvennt. Í fyrsta lagi að fyrirtæki sem eru til rannsóknar reyna oft að lengja málsmeðferðina. Það sem veldur okkur aftur á móti mestum áhyggjum er að fjárheimildir eftirlitsins til hefðbundinna verkefna verið skorin niður um fjórðung á sama tíma og málunum hefur stórfjölgað.“
Páll var harðorður í garð skýrslunnar og sagði hana hampa stórum fyrirtækjum, en á sama tíma væri dregið úr þeirri vörn sem samkeppnislögin væru fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Þetta vekti spurningar um hvernig forsvarsmönnum minni fyrirtækja þætti framganga samtaka sem væru titluð samtök alls atvinnulífsins.
Í skýrslunni er talað um að takmarka eigi ákvæði sem heimili samkeppnisyfirvöldum að breyta skipulagi fyrirtækja og bent á að slíkt setji fyrirtæki í einstaklega erfiða stöðu í langan tíma meðan málið er í vinnslu. Páll sagði að það kæmi skýrt fram að slíkt vinna ætti aldrei að taka lengri tíma en 2 ár. Hann taldi einnig að þeim sem stunduðu heilbrigða viðskipahætti ætti ekki að stafa ógn af slíku. „Það stendur engum ógn af þessari heimild, öðrum en þeim sem vilja hagnast á samkeppnishindrunum eða einokun.“
„Við erum stöðugt að reyna að koma með leiðbeiningar á þessu sviði, við erum að skrifa skýrslur og taka ákvarðanir sem fela í sér mjög ítarlegar leiðbeiningar til fyrirtækja á mörkuðum þannig að það er ekki rétt að við séum ekki að leiðbeina fyrirtækjum“ segir Páll um gagnrýni sem eftirlitið fær fyrir að hafa ekki sett fram almennar leiðbeiningar til stórra fyrirtækja. Segir hann að stjórnendur sjálfir séu þess best fallnir að meta hvort fyrirtæki séu markaðsráðandi og að ekki sé hægt að varpa þeirri ábyrgð yfir á Samkeppniseftirlitið.
Páll fór einnig mikinn í umfjöllun sinni um íslenska fyrirtækjamenningu sem hann sagði ekki á sama stað og í nágrannalöndunum. „Því miður hefur sú menning þróast hér í atvinnulífinu að ala á tortryggni gagnvart samkeppnislögunum. Þegar maður skoðar starfshætti samtaka í atvinnulífinu í löndum í kringum okkur kveður við annan tón. Þar eru víða settar fram mjög skýrar reglur og siðareglur af hálfu samtakanna þar sem búið er svo um hnútana að aðild að samtökunum er gæðastimpill og það að brjóta samkeppnislög sé alvarlegt fyrir samtökin. Við köllum eftir því að samtök í atvinnulífinu hér vinni frekar með okkur en gegn okkur þegar kemur að því að byggja upp fyrirtækjamenningu og ali ekki á tortryggni og vinni þannig að hagsmunum stóru fyrirtækjanna á kostnað minni fyrirtækjanna.“