Samkeppniseftirlitið hefur vísað frá erindi Hagsmunasamtaka heimilanna þar sem óskað var eftir rannsókn á meintri aðkomu Samtaka fjármálafyrirtækja að samráðsvettvangi um gengislán, sem áður hafði verið heimilaður af Samkeppniseftirlitinu.
Í niðurstöðu eftirlitsins kemur fram að í ljósi umsagna frá Umboðsmanni skuldara og Samtökum fjármálafyrirtækja sé ekki tilefni til aðgerða af hálfu stofnunarinnar. Mbl.is fjallaði um málið fyrr í haust, en þar kom meðal annars fram að í upphafi árs hefðu fjármálafyrirtækin fengið undanþágu frá bannákvæðum samkeppnislaga til að vinna að endurútreikningi, málaferlum og ýmsum úrlausnarefnum er vörðuðu gengistryggð lán. Í athugasemdum við undanþáguna voru aftur á móti sett afmarkandi skilyrði ásamt viðurlögum við brotum.
Hagsmunasamtök heimilanna töldu sig þá hafa rökstuddan grun um að samráð fjármálafyrirtækja hefði náð út fyrir umrædda undanþágu. Samkvæmt niðurstöðu eftirlitsins í málinu stóðst sá grunur ekki og málinu því vísað frá.