Það er afar sérkennilegur málflutningur hjá fjármálaráðherra að réttlæta skattheimtu á stóriðju vegna lágs gengis krónunnar, segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka álframleiðenda. Í frétt mbl.is um raforkuskatt kom fram að ein af röksemdum ríkisstjórnarinnar fyrir skattinum væri hagfellt rekstrarumhverfi stóriðjunnar vegna veiks gengis íslensku krónunnar.
Þorsteinn segir í samtali við mbl.is að útflutningsgreinarnar hafi barist við hátt raungengi hér á landi um árabil, en að ekki hafi verið rætt um sérstaka skattalækkun af hálfu stjórnvalda þá. Því skjóti það skökku við að lægra raungengi núna kalli á frekari skattheimtu.
Segir hann að áhugi erlendra fjárfesta á að koma með erlendan gjaldeyri hingað til lands í gegnum fjárfestingaleiðina sýni að gengi krónunnar sé ekki lágt. Við það bætist að þættir eins og viðskiptajöfnuður sýni fram á að gengi krónunnar sé ekki langt frá því sem eðlilegt getur talist. „Núverandi gengi er ekki óeðlilega lágt heldur mætti fremur færa rök fyrir því að það væri í ágætu jafnvægi ef horft er til þátta á borð við vöruskipta- og viðskiptajöfnuð. Á sama tíma hafa helstu útflutningsgreinar landsins verið að glíma við lækkandi afurðaverð og því þurft að gæta aukins aðhalds í rekstri sínum.“
„Ég myndi halda að stjórnvöld fagni því þegar samkeppnisstaða útflutningsaðila sé góð, en fari ekki að veikja hana með sköttum“ segir Þorsteinn og bendir á að á næsta ári bætist við að álverin þurfi að kaupa sér losunarheimildir vegna aðildar Íslands að viðskiptakerfi Evrópusambandsins með loftslagslosunarheimildir. Hann segir að slíkur kostnaður muni hlaupa á hundruðum milljóna fyrir álfyrirtækin hérlendis, jafnvel þótt þau fái stóran hluta heimildanna með úthlutun endurgjaldslaust.