Olíufélögin N1, Skeljungur og Olís hafa öll hækkað verð á bensíni og dísilolíu í dag og í gær. ÓB bensín fylgdi einnig í kjölfarið, en Orkan og Atlantsolía hafa ekki breytt verðinu hjá sér. Seinni partinn í gær riðu N1 og Olís á vaðið og hækkuðu bæði dísil og bensín um 3 krónur á lítrann. Algengt verð á bensínlítra hjá félögunum er nú 260,4 krónur, en dísillítrinn er á 263,6 krónur.
Skeljungur og ÓB fylgdu í kjölfarið í dag og hækkaði bensínlítrinn um 2,8 krónur hjá Skeljungi og kostar hann nú 262,4 krónur. Dísilolíulítrinn hækkaði um 2 krónur og kostar hann 262,7. Hjá ÓB kostar nú lítrinn af bensíni 260,2 krónur en dísillítrinn 262,5 krónur.