Lögð hefur verið fram tillaga til þingsályktunar á Alþingi um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingabanka. Álfheiður Ingadóttir mælti fyrir tillögunni, en auk hennar eru 15 flutningsmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokknum. Tillagan var áður lögð fram á síðasta þingi, en varð ekki útrædd.
Tillagan felur í sér að skipa nefnd sem muni endurskoða skipan bankastarfsemi í landinu með það að markmiði að lágmarka áhættu þjóðarbúsins vegna áfalla í rekstri banka. Telja flutningsmenn að það megi meðal annars gera með aðskilnaði.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að „á undanförnum missirum hefur mikil umræða verið bæði hér á landi og í nágrannalöndum um nauðsyn þess að takmarka kerfisbundna áhættu í fjármálakerfum fyrir efnahagslíf og skattborgara viðkomandi landa. Margir telja að mikilvægasta skrefið í þeim efnum sé að aðskilja fjárfestingarbanka- og viðskiptabankastarfsemi. Sú skipan mála tryggir að baktrygging og stuðningur ríkja og seðlabanka takmarkast við hefðbundna bankastarfsemi, þ.e. innlán og útlán og nauðsynlega þjónustu við fólk og fyrirtæki. Aðskilnaður kemur í veg fyrir að spákaupmennska og áhættufjárfestingar fjárfestingarbanka lendi á skattgreiðendum og efnahagskerfinu í heild.“
Sagt er frá því að í nágrannalöndum okkar sé nú þegar hafin vinna við reglugerðir sem lúti að málinu og meðal annars nefnd Vicker-reglan sem unnið er að í Bretlandi og Volcker- aðskilnaðarreglan sem hefur verið samþykkt í Bandaríkjunum.
Tekið er fram að yfirmenn Fjármálaeftirlitsins hafi ekki hug á frumkvæði í málinu og vitnað í orð Unnar Guðmundsdóttur, forstjóra eftirlitsins, þegar hún sagði að „það ekki alveg tímabært að svo stöddu“. Einnig hafi bankastjórar stóru bankanna lýst andstöðu sinni við málið, eins og kom fram á fundi Félags hagfræðinga og viðskiptafræðinga í Hörpunni í september.