Hlutabréfamarkaðurinn undirverðlagður

Kristján Markús Bragason, aðalgreinir hjá Greiningu Íslandsbanka á fundi í …
Kristján Markús Bragason, aðalgreinir hjá Greiningu Íslandsbanka á fundi í Turninum við Smáratorg Ómar Óskarsson

Vegna smæðar hlutabréfamarkaðarins og fárra skráðra fyrirtækja er veltan lítil og menn forðast enn að flytja fjármagn beint í fyrirtækjarekstur. Þetta leiðir til þess að hlutabréfamarkaðurinn er undirverðlagður, en með háa ávöxtunarkröfu segir Kristján Markús Bragason, aðalgreinir hjá greiningu Íslandsbanka. Hann hélt fyrirlestur á morgunverðarfundi Deloitte, Viðskiptaráðs og Kauphallarinnar í vikunni og fjallaði þar um  íslenska hlutabréfamarkaðinn. Að hans mati mun markaðurinn taka hægt og rólega við sér og almennir fjárfestar munu í auknum mæli vera skynsamari og spyrja öðruvísi spurninga en áður og veita markaðinum betra aðhald. Hann telur það einnig brengla uppgjör fyrirtækja að ekki sé fullvissa um yfirfærslumynt sem gert er upp í, en til þess séu í raun þrjár aðferðir.

Erfitt að verðmeta fyrirtæki rétt

Það sem er vandamál fyrir íslensk fyrirtæki er að verðmeta sig rétt segir Kristján. Ef félög eru með innkomu í erlendri mynt verður erfitt að meta hvaða gengi skuli nota. Þrjár leiðir eru í boði, hægt er að nota skráð gengi Seðlabankans í þvinguðu umhverfi, eða ef fjárfestirinn er erlendur, þá mun hann væntanlega frekar horfa á aflandsgengið. Svo er einnig hægt að nýta fjárfestingaleið Seðlabankans og fá þannig 20% afslátt af skráðu gengi og fara þannig einhverskonar millileið.

Kristján segir í samtali við mbl.is að þetta geri það að „verkum að ásýndin á fyrirtæki með innkomu í erlendri mynd er mjög brenglað þegar það er fært yfir í íslenskar krónur miðað við gengi Seðlabankans, þar sem ekki er vitað hvers virði yfirfærslumyntin er sem er erlend mynt sem greidd fyrir með íslenskum krónum og það er vandamálið.“

Aðspurður um hvernig erlendir fjárfestar horfi venjulega á sem raungengi segir Kristján að það síðasta sem þeir myndu horfa á væri skráða gengið. Líklegast horfi flestir á aflandsgengið með einhverjum smá tilfærslum til eða frá, eftir því hvernig þeir meti áhættuna á að vera fastir með peninga í íslenska hagkerfinu til lengri tíma. Segir hann ólíklegt að horft sé á fjárfestingaleiðina sem 20% afslátt, heldur frekar að það sé leið sem sé á milli hinna leiðanna og því ekki rétt að tala um afslátt.

Undirverðlagning á hlutabréfamarkaði

Í dag er hlutabréfamarkaðurinn undirverðlagður að mati Kristjáns, en menn eru enn fælnir við að setja fjármagn þangað. „Ef fólk beitir grunnfræðum og skoðar markaðinn hérlendis fær það fljótt vísbendingar um að hann sé í ódýrari kantinum, meðal annars vegna þess að fjárfestar halda sig til baka, menn eru brenndir og markaðurinn er lítill.“

Með fleiri skráðum fyrirtækjum segir Kristján að meira jafnvægi muni komast á markaðinn með frekara flæði fjármagns og að markaðsverð muni þá nálgast raunvirðið. Í dag sé enn gerð mjög há ávöxtunarkrafa og bréfin undirverðlögð.

Til að skoða samanburð á íslenskum og erlendum hlutabréfamörkuðum er hægt að horfa til þess að á Íslandi er stærð hlutabréfamarkaðarins aðeins um 15% af landsframleiðslu. Kristján segir að í öðrum Evrópulöndum, ef frá eru talin Írland og Grikkland, þá sé upphæðin nær því að vera um 50 til 60% af landsframleiðslu. Meðaltal OECD ríkjanna sé svo á milli 70 og 80%. Hann telur reyndar enga eina tölu vera rétta í þessu samhengi, en að staðan í dag og eins og hún var fyrir hrun sé öfgagildi sem beri að forðast, en árin 2006 og 2007 var þetta hlutfall yfir 200% hérlendis.

Lítið um fyrirtækjaskuldabréf

Annað atriði sem sker sig úr varðandi fyrirtækjamarkað hérlendis er lágt hlutfall fjármögnunar fyrirtækja í formi skuldabréfa. Þetta hlutfall er lítið sem ekkert í dag og var jafnvel fyrir hrun nokkuð lágt, en Kristján segir að fjármögnun frá bönkum hafi verið mjög góð þá og önnur fjármögnunarformi að miklu leiti ósamkeppnishæf þegar kom að kostnaði.

Til samanburðar er hlutfall milli bankafjármögnunar og skuldabréfaútgáfu fyrirtækja nálægt því að vera jafnt í Evrópu að sögn Kristjáns. Hann gerir þó ekki ráð fyrir að þetta muni breytast hratt hér. Bæði séu fjárfestar brenndir eftir hrunið og stór fyrirtæki hafi nýlega náð nokkuð góðum árangri í samningum við fjármálastofnanir um fjármögnun. Hann segir þó að við séum farin að sjá skuldabréfaútboð og að horft sé á þau sem eðlilegt stig í fjármögnun.

Hinn neikvæði og varkári fjárfestir framtíðarinnar

Kristján telur að markaðurinn muni taka við sér á næstunni, en gert er ráð fyrir skráningu Eimskips og Vodafone á þessu ári, auk þess sem fjölmörg fyrirtæki eru talin líkleg að taka skrefið á næstu tveimur árum. Segir hann að með fjölbreyttara vali og þegar fólk geti fært sig milli atvinnugreina og þannig dreift áhættunni meira muni viss skriðþungaáhrif ýta fjárfestingum á þessum vettvangi af stað. 

Fjárfestar muna þó að mati Kristjáns haga sér öðruvísi en áður. „Menn eru brenndir, varkárir og eru til baka og gera því nokkuð þunga ávöxtunarkröfu á hlutabréf í dag. Þeir vilja hafa félögin gegnsæ og eru komnir með nóg af rugli.“ Segir hann að fjárfestar séu orðnir miklu skynsamari og spyrja öðruvísi spurninga en áður. Jafnvel megi segja að þeir séu neikvæðari en áður, sem Kristján segir ekki endilega þurfa að vera slæmt, heldur sé að mörgu leiti hollt fyrir markaðinn og veiti betra aðhald.

„Meðalfjárfestirinn á eftir að haga sér þannig að ef hann skilur ekki fyrirtækin, þá kaupir hann eitthvað annað. Árin 2006 til 2007 var þetta ekki svona og fólk fylgdi bara hjörðinni.“ Nefnir hann sem dæmi óefnislegar eignir sem almennt séu nauðsynlegur hluti af efnahagsreikningi margra fyrirtækja. Fyrir hrun hafi aftur á móti verið farið frjálslega með þessar stærðir og fólk muni í auknum mæli vilja sjá haldbærari rökstuðning og vilja skilja það sem liggur á bakvið verðmöt, annars muni það færa sig annað með fjármunina.

Kristján Markús Bragason
Kristján Markús Bragason Ragnar Þorvarðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK