Tvöfalda við sig og flytja í Garðabæ

Hátæknifyrirtækið Stjörnu-Oddi flutti nýlega starfsemi sína í tvöfalt stærra og endurbætt húsnæði í Garðabænum en með því getur fyrirtækið tvöfaldað framleiðslugetu sína og fjölgað starfsmönnum og öll aðstaða til þróunar tækninýjunga og sérhæfðar framleiðslu eykst til muna. Í gær bauð fyrirtækið viðskiptavinum að skoða nýju aðstöðuna eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Sigmar Guðbjörnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að þetta hafi verið orðið nauðsynlegt skref þar sem ekki hafi verið hægt að fara bæta við starfsemina í gamla húsnæðinu. „Plássið var farið að há okkur þar sem við gátum ekki bætt við fólki eða fjárfest í tækjabúnaði sem gæfi okkur aukna möguleika.“

Nýja húsnæðið er 915 fermetrar, en starfsmenn eru í dag 24 í 20 ársverkum auk þess sem ráðgjafar koma að vissum verkefnum og umboðsaðilar vinna fyrir fyrirtækið á nokkrum stöðum erlendis.

Stjörnu-Oddi þróar mælitæki fyrir alþjóðlegan rannsóknariðnað. Mælarnir eru notaðir af rannsóknarstofnunum, háskólum og vísindamönnum um heim allan og eru þeir aðallega notaðir til að safna gögnum um lífríkið, svo sem við haf- og vatnarannsóknir, við dýrarannsóknir, þá helst fiskmerkingar, og við rannsóknir á tilraunadýrum við lyfjaþróun.

Sérstaða mælanna felst meðal annars í smæð þeirra og áreiðanleika en minnstu mælarnir eru um 6 millimetrar í þvermál og passa innan í og utan á dýr, fugla og fiska. Mælarnir eru einnig notaðir í ýmis konar iðnaði, til dæmis við borholurannsóknir til að mæla jarðhita og í drykkjarvöruiðnaði til að mæla gerilsneyðingu. Fyrirtækið selur nú þegar tæknilausnir sínar til yfir 50 landa og er með yfir 40 dreifingaraðila á alþjóðavísu en framleiðsla og þróun fer öll fram á Íslandi.  

Mælarnir komu fyrst á markað árið 1993 og voru upphaflega þróaðir fyrir fiskmerkingar. Þeir hafa síðan þá verið festir á dýr til að kanna ferðir þeirra og hegðun. Í framhaldi af því hóf fyrirtækið nýverið innreið sína á lyfjaþróunarmarkaðinn en alþjóðleg lyfjafyrirtæki og háskólar nota mælana til að kanna áhrif nýrra lyfja í lyfjaþróun á hitastig dýra, til dæmis rotta, músa, apa og marða.

„Í þessu húsnæði eigum við möguleika á að tvöfalda starfsmannafjöldann og framleiðslugetuna. Við munum þó áfram keyra af varfærni eins og venjulega, en ef eitthvað skeður á markaðinum sem er okkur til framdráttar, þá gefur þetta möguleika á að bregðast fyrr við en annars hefði verið“ segir Sigmar, en játar því þó að með stækkuninni sé auðvitað verið að taka meiri séns en fyrirtækið hefur gert áður, til dæmis fyrir hrunið, en þetta sé þó allt gert út frá útreiknaðri áhættu og byggt á forvinnu í markaðs- og sölumálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK