Um nokkurt skeið hefur íslenskt skyr verið í boði í verslunum Whole Foods Market í Bandaríkjunum. Nú hefur ný verslunarkeðja bæst í hópinn, sem mun auka enn frekar á dreifingu skyrs á Bandaríkjamarkaði. Verslunarkeðjan The Fresh Market, sem rekur rúmlega hundrað verslanir á allri austurströndinni og í mið-vestur ríkjunum, mun framvegis bjóða upp á vöruna í hillum sínum. Þetta kemur fram á vefmiðlinum Webwire.
í tilkynningu vegna þess er sagt að gert sé ráð fyrir að ummæli Russell Crowe um skyr í Íslandsheimsókn sinni hafi aukið mikið áhuga erlendra aðila á skyrinu, en Guðný Steinsdóttir, markaðsstjóri MS, segir að erlendir aðilar hafi í auknum mæli haft samband við fyrirtækið og forvitnast um sölustaði. Þessi aukna dreifing mun því vonandi hjálpa til við að svala forvitni fólks og kynna það fyrir nýjum neytendum.