Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) hefur hætt rannsókn á Kaupþingi og falli bankans og eins á kaupsýslumanninum Robert Tchenguiz. Áður hafði formlega verið tilkynnt um að rannsókn á eldri bróður hans, Vincent Tchenguiz, hefði verið hætt.
Samkvæmt frétt á vef Financial Times verður væntanlega greint formlega frá þessu síðar í dag.
Upphaflega hafði SFO átta manns til rannsóknar í tengslum við málið en bræðurnir voru handteknir á síðasta ári og húsleit gerð á heimilum þeirra og skrifstofum í tengslum við rannsókn SFO á viðskiptum þeirra við Kaupþing. Miðaði leitin að því að finna skjöl sem tengdust lánum bankans árið 2008 til Tchenguiz Family Trust upp á margar milljónir punda skömmu fyrir fall bankans.
Málið hefur verið allt hið vandræðalegasta fyrir SFO og hefur stofnunin þurft að biðjast afsökunar á handvömm við rannsókn þess.
David Green, framkvæmdastjóri SFO, tók við rannsókn málsins er hann kom til starfa hjá stofnuninni í apríl þegar forveri hans í starfi, Richard Alderman, lét af störfum.
Green hætti rannsókn á hlut Vincents Tchenguizs fljótlega eftir að hann kom til starfa en spurningar hafa vaknað um hvort efnahagsbrotadeildin sé í stakk búin til þess að rannsaka jafn flókin mál og hafa komið á borð stofnunarinnar undanfarin ár. Fjárframlög til SFO hafa lækkað ár frá ári og hafa farið úr 52 milljónum punda árið 2008 í 32 milljónir punda í ár.