Bandaríski hugbúnaðarframleiðandinn Microsoft mun í dag kynna til sögunnar nýja leið fyrir fyrirtækið til að komast inn á tónlistarmarkaðinn, en fyrri tilraunir hafa ekki gengið sem skyldi. Áður hafði Zune-tónlistarveitan aðeins skilað höfuðverk fyrir Microsoft, en núna er hugmyndin að tengja tvö af sterkari merkjum fyrirtækisins við tónlistarsöluna. Þetta kemur fram í frétt The New York Times um málið.
Þjónustan mun heita Xbox Music og tengist hún bæði Xbox-leikjatölvunni og Windows-stýrikerfinu. Munu notendur sem nota kerfin tvö geta hlustað ókeypis á yfir 30 milljónir laga sem eru í safni veitunnar. Til að byrja með verða engar takmarkanir á hlustun, en það gæti þó breyst með tíð og tíma.
Ljóst er að stóru tæknifyrirtækin horfa öll á tónlistarmarkaðinn sem grunnatriði til að ná betri sölu á tækjum og tólum hverskonar og er þessu nýjasta útspili Microsoft beint gegn keppinautunum Apple, Amazon og Google, sem öll bjóða upp á tónlistarveitur af einhverju tagi. Microsoft mun þó ekki aðeins vera með sölu á tónlist, heldur mun fyrirtækið einnig keppa við minni aðila eins og Spotify og Pandora sem leyfa notendum að streyma tónlist í gegnum netið eða smíða útvarpsstöðvar sem tengja sig við tónlistaráhuga notenda.