Atvinnuleysið verður áfram mikið

mbl.is/Ómar

„Þrátt fyrir að spáin sé nokkuð bjartsýn, þá erum við að spá því að atvinnuleysi árið 2015 verði 3,8%, sem er miklu meira atvinnuleysi en við höfum áður þurft að búa við. Jafnaðaratvinnuleysi hefur verið 1,5 til 2% hérlendis, en tæplega 4% atvinnuleysi er nærri óbærilegt, því þúsundir vinnufærra handa eru án atvinnu og því fylgja verulegir fjárhagserfiðleikar og vandamál.“ Þetta segir Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, í samtali við mbl.is, en ný hagspá félagsins var kynnt í dag. Segir hann hættu á að atvinnuleysi muni áfram vera mikið næstu 4 árin miðað við það sem þekkist hérlendis.

Sjá fyrir aukna fjárfestingu

Almennt segir Ólafur Darri að spáin sé nokkuð bjartsýn og það megi að miklu leyti rekja til breytinga í fjárfestingum. „Stóra breytingin í þessari spá okkar frá fyrri spám er að okkur sýnist meiri líkur vera á aukningu í fjárfestingum.“ Í spánni er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á næsta ári við byggingu álvers í Helguvík, nýs fangelsi á Hólmsheiði, spítala í Vatnsmýrinni og borun Vaðlaheiðarganga.

Aðspurður hvort þessar forsendur séu of bjartsýnar segir Ólafur Darri svo ekki vera. Telur hann að þó verkefnin séu ekki öll í hendi þá hafi líkurnar á að framkvæmdir hefjist fljótlega aukist mikið. Segir hann líkurnar á álveri í Helguvík hafa aukist vegna framfara í samningaviðræðum um orkukaup og búið sé að gefa sterklega í skyn að af framkvæmdum við nýtt fangelsi og Vaðlaheiðargöng verði. Spítalinn sé þó sá þáttur sem mest óvissa ríki um, þar sem skipulagsmál séu ekki frágengin og staðsetningin sé umdeild.

Í skýrslunni er tekið fram að ef frestun verður á byggingu spítalans og framkvæmdum í Helguvík þýði það að uppsöfnuð verðmætasköpun yrði um 100 milljörðum minni á framkvæmdatímabilinu frá 2013 til 2017.

Enn eftirsóknavert að fjárfesta þrátt fyrir skattahækkanir

Gert er ráð fyrir mikilli aukningu í fjárfestingu atvinnulífsins í skýrslunni. Aðspurður hvort skattahækkanir, meðal annars á stóriðjuna, ferðaþjónustuna og sjávarútveginn, muni ekki hafa áhrif á fjárfestingu og draga úr henni segist Ólafur Darri ekki telja svo vera. Segir hann að svo virðist sem mest allt moldviðrið sé að setjast varðandi sjávarútveginn og að það verði aukning á næstu árum í fjárfestingum þar vegna uppsafnaðrar þarfar. Hann segir það sama eiga við um ferðaþjónustuna sem ætti að njóta góðs af veiku gengi og þó þetta geri fjárfestingakostinn minna eftirsóttan, þá sé enn eftirsóknavert að fjárfesta í ferðaþjónustu.

Þegar horft er til heildarfjárfestinga sem hlutfall af landsframleiðslu er Ísland enn um 10 prósentustigum neðar en langtímameðaltalið. Svipaða sögu er að segja um þegar miðað er við meðaltal atvinnufjárfestinga OECD ríkjanna, en fjárfestingahlutfall í atvinnulífinu er um 10 prósentustigum lægra hérlendis. Ólafur Darri segir þetta vera áhyggjuefni og að reynt hafi verið að stuðla að hækkun í síðustu kjarasamningum.

Þörf á kröftugri hagvexti og meiri fjárfestingu

Það sé nú ljóst að það hafi ekki gengið eftir, en vonast var til þess að heildarfjárfesting færi upp í 20% í lok árs 2013, en í spánni sem var kynnt í dag er gert ráð fyrir að í lok árs 2015 fari hlutfallið í um 19%. Segir hann þetta þýða að hætta sé á að Ísland festi sig í lægra hagvaxtarstigi en áður hefur þekkst hérlendis.

„Það er alveg ljóst í mínum huga að við þurfum kröftugri hagvöxt og meiri fjárfestingar til að rífa okkur upp úr þessu ástandi“ segir Ólafur Darri, en þróunin sé þó í rétta átt.

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ
Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ Þorkell Þorkelsson
Horfur í efnahagsmálum
Horfur í efnahagsmálum Þorsteinn Ásgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK