Spá bjartari tímum í efnahagslífinu

ASÍ segir að það sé að birta yfir efnahagsmálunum.
ASÍ segir að það sé að birta yfir efnahagsmálunum. Eggert Jóhannesson

Hagvöxtur mun glæðast, fjárfestingar taka við sér, kaupmáttur aukast og atvinnuleysi minnka út árið 2015 samkvæmt nýrri hagspá ASÍ. Segir þar að hagur heimilanna muni vænkast og fjárhagsstaða hins opinbera batna. Þó er varað við óstöðugleika, veiku gengi og mikilli verðbólgu, auk þess sem efnahagsvandi ríkjanna í kringum okkur er talin töluverð ógn við efnahagsbatann. Í hagspánni er gert ráð fyrir að framkvæmdir vegna álvers í Helguvík, fangelsis á Hólmsheiði, Vaðlaheiðarganga og nýs spítala muni hefjast á næsta ári, en tekið fram að ef seinkanir verði þar á geti það þýtt 2,7% minni hagvöxt til 2015 og 100 milljarða minni verðmætasköpun.

Telja fjárfestingu aukast um 22% á næsta ári

Í spánni er fagnað árangri í að koma skikki á fjármál hins opinbera, meðal annars með að sveitafélögum hafi verið settar reglur um sjálfbærni í fjárhagsmálum, en einnig varað við að framundan séu kosningar og að stjórnmálamenn megi ekki lofa um efni fram á komandi misserum vegna þeirra.

ASÍ spáir því að hagvöxtur á árinu verði 2,7% í ár og 2,5% á næsta ári, 2,8% 2014 og 2,3% 2015. Fjárfesting er talin aukast um rúmlega 22% á næsta ári og um 12,4% árið 2013, en lítil aukning var í fjárfestingu á þessu ári, meðal annars vegna samdráttar hjá hinu opinbera. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi haldi áfram að lækka og verði komið í 4,9% á næsta ári og 3,8% árið 2015.

Vilja skoða möguleika á að festa gengi krónunnar

Gengi krónunnar verður áfram veikt samkvæmt spánni, en ef fjárfestingaáform ganga eftir ættu að skapast skilyrði fyrir styrkingu krónunnar. Tekið er fram að mikilvægt sé að gengið haldist stöðugt til að hemja verðbólguvæntingar og skapa bjartari horfur um verðlagsþróun. Gert er ráð fyrir því að verðbólgan verði 5,3% að meðaltali á þessu ári og fari svo minnkandi, verði 4,5% á næsta ári, 3,8% árið 2014 og 2,6% í lok spátímans.  

Í skýrslunni er sagt að til skemmri tíma sé nauðsynlegt að draga úr gengissveiflum og styrkja gengi krónunnar til að koma í veg fyrir því að há verðbólga hamli bættum hag heimilanna og tryggja jafnvægi milli innlendra atvinnugreina. Í því samhengi er lagt til að skoðaður sé möguleikinn á að festa gengi krónunnar. Til lengri tíma telur ASÍ nauðsynlegt að taka upp annan gjaldmiðil sem sé traustari en krónan.

Efnisorð: ASÍ efnahagsspár
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK