Atvinnuleysi mældist 5% í september samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Er það heldur meira atvinnuleysi en samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Atvinnuleysi var 1 prósentustigi lægra en í september 2011 en þá var atvinnuleysi 6%.
Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru í september 2012 að jafnaði 180.700 manns á vinnumarkaði. Af þeim voru 171.700 starfandi og 9.000 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 80,6%, hlutfall starfandi 76,6%.
Mun hærra hlutfall kvenna án atvinnu
Atvinnuleysi í september 2012 var 4,3% á meðal karla miðað við 5,5% í september 2011 og meðal kvenna var það 5,7% miðað við 6,4% í september 2011.
Árstíðaleiðréttur fjöldi atvinnulausra í september 2012 var 10.900 eða 6% en var 11.300 eða 6,4% í ágúst 2012. Fjöldi starfandi var 170.700 í september 2012 eða 76,5% en var 166.400 eða 74,5% í ágúst 2012. Leitni árstíðaleiðréttingar á atvinnuleysi sýnir að síðast liðna sex mánuði hefur það nánast staðið í stað. Leitni hlutfalls starfandi stendur í stað frá því í ágúst eftir að hafa aukist lítillega frá maí til júlí.