Starfandi einstaklingum fjölgaði um 7500 í september miðað við sama tíma í fyrra. Atvinnulausum fækkaði einnig og eru nú 9 þúsund, miðað við rúmlega 10 þúsund í fyrra. Atvinnuleysi hefur því lækkað úr 6% niður í 5%. Þetta kom fram í tölum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar sem birtist í morgun.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði í samtali við mbl.is að sér væri nokkuð léttara yfir þessum tölum en þeim sem birtust í júlí og ágúst sem hann segir að hafi verið mikið áhyggjuefni. Segir hann að þessar tölur gefi til kynna að meiri stöðugleiki sé að komast á vinnumarkaðinum en leit út fyrir samkvæmt fyrri tölum.
Hann nefnir þó að þriðji ársfjórðungur hafi almennt verið sá ársfjórðungur þar sem flest störf hafi verið í boði, en svo hafi þeim fækkað á næstu tveimur ársfjórðungum. Vilhjálmur segir að þrátt fyrir þessar nýju tölur vanti enn töluvert uppá að efnahagslífið komist á rétt ról. Segir hann nauðsynlegt að hagvöxtur verði um 4 til 5% á ári næstu þrjú árin, en slíkt myndi koma okkur úr erfiðleikunum.
Samkvæmt spá ASÍ, sem birt var í gær, er áætlaður hagvöxtur í ár og fram til ársins 2015 á bilinu 2,3 upp í 2,8% og segir Vilhjálmur að með svo lágan hagvöxt muni ennþá vera hjakkað í sama farinu. Fjárfestingar í útflutningsgreinum séu lykilinn að því að auka hagvöxtinn og að því eigi að róa öllum árum að hans mati.
Í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka er bent á að heildarfjöldi vinnustunda hafi mælst 1,2% meiri á fyrri árshelmingi í ár samanborið við sama tímabil á árinu 2010 samkvæmt könnun Hagstofunnar. Landsframleiðslan jókst hins vegar talsvert meira eða um 5,0% að raungildi á þessu sama tímabili. Segir greiningardeildin að þekkt sé að þegar hagkerfi taki við sér eftir mikinn slaka nýti fyrirtæki fyrst vinnuafl betur sem sé starfandi áður en farið sé í nýráðningar. Þannig verður framleiðnivöxturinn hraðastur við upphaf uppsveiflunnar sem útskýrir af hverju atvinnuástandið hefur ekki fylgt hagvaxtarþróuninni.
Líkt og ASÍ spáir Íslandsbanki því að atvinnuleysi verði yfir fjórum prósentum í lok árs 2014, en bankinn gerir ráð fyrir að 4,1% verði þá atvinnulaus. ASÍ spáir aftur á móti 4,3% og Seðlabankinn 4,4%.