Sérfræðingahópur um fjármálastöðugleika leggur til að ábyrgðaryfirlýsing ríkisins á innlánum í íslenskum bönkum verði afnumin, en hún var gefin út frá því í október 2008. Í stað hennar sé æskilegt að taka upp innlánatryggingakerfi í samræmi við væntanlega tilskipun Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins og staðfesta forgang innlána sem tryggð eru með innlánatryggingakerfi við skilameðferð. Þetta kemur fram í skýrslu hópsins sem kynnt var í morgun, en fjölmargar hugmyndir um breytingar á lagaumhverfi og reglum í fjármálakerfinu eru lagðar til þar.
Steingrímur J. Sigfússon, atvinnumála- og nýsköpunarráðherra, segir að vilji sé fyrir að breyta þessum málum, en að framvinda mála í Evrópu tefji endanlega niðurstöðu nokkuð þar sem Ísland sé að einhverju leyti bundið af regluverkinu þar. Hann segir aftur á móti að ekki sé stefnt á að „allar innistæður, hvaða nafni sem þær nefnast, í öllu fjármálakerfinu séu alltaf tryggðar á grundvelli einhverrar pólitískrar yfirlýsingar stjórnvalda.“