Vilja stofna fjármálastöðugleikaráð

mbl.is/Hjörtur

Setja þarf rammalöggjöf um fjármálastöðugleika til að efla og viðhalda skilvirku fjármálakerfi á Íslandi í almannaþágu. Sömuleiðis er nauðsynlegt að stofna fjármálastöðugleikaráð og að framkvæmd laga um fjármálageirann, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið verði færð undir eitt ráðuneyti svo styrkja megi stjórnarhætti og skýra ábyrgð á fjármálastöðugleika.

Þetta er meðal þess sem sérfræðingahópur sem skoðað hefur heildarumgjörð laga og reglna um íslenskt fjármálakerfi, leggur til. Sérfræðingahópurinn, sem skipaður var í mars s.l. af efnahags- og viðskiptaráðherra, hefur skilað tillögum og ábendingum til Katrínar Júlíusdóttur fjármála- og efnahagsráðherra og Steingríms J. Sigúfssonar atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.

Tillögurnar er að finna í skýrslu hópsins Framework for Financial Stability in Iceland. Fulltrúar í hópnum eru Gavin Bingham, fv. framkvæmdastjóri Central Bank Governance Forum hjá BIS í Basel, Jón Sigurðsson, fv. forstjóri Norræna fjárfestingarbankans (NIB) í Helsinki og Kaarlo Jännäri, fv. forstjóri fjármálaeftirlits Finnlands, samkvæmt fréttatilkynningu.

Tvö frumvörp lögð fram

Fram kom á fundi ráðherranna tveggja með blaðamönnum í dag, þar sem skýrsla sérfræðinganna var kynnt, að strax verði hafin vinna við innleiðingu tillagna sérfræðingahópsins. Stefnt sé að því að tvö lagafrumvörp sem taka á tillögunum líti dagsins ljós á yfirstandandi þingi.

„Í tillögum sérfræðingahópsins eru m.a. lagðar til margvíslegar leiðir til að taka á kerfislegum vandamálum samþjöppunar, hás flækjustigs, lítillar samkeppni og misvísandi hvötum í íslensku fjármálakerfi. Meðal annars er lagt til að öll fjármálafyrirtæki falli undir sameiginlegar kjarnareglur um sambærilega starfsemi.

Einnig að unnt verði að aðgreina mikilvægustu rekstrarþætti, svo sem fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi við skilameðferð og athugað verði gaumgæfilega hvort krefjast skuli lagalegs aðskilnaðar tiltekinna sérlega áhættusamra starfsþátta frá þeim rekstri bankanna sem tekur við innlánum ef þeir starfsþættir eru verulegur hluti af rekstri banka.

Líka er lagt til að eftirlitsheimildir og atkvæðisréttur sem fylgir  opinberu eignarhaldi verði nýttar, t.d. með því að krefjast þess að breytileg þóknun (bónus) lykilstarfsmanna og stjórnenda verði greidd með hlutabréfum án atkvæðisréttar eða óframseljanlegum ótryggðum skuldabréfum, til að taka á misvísandi hvötum,“ segir í tilkynningu.

Ráðherra setur málið í nefndir

Fjármála- og efnahagsráðherra mun skipa nefnd til þess að semja frumvarp um fjármálastöðugleika og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra mun skipa nefnd til þess að semja frumvarp um viðbúnað, inngrip og slit fjármálafyrirtækja. Þá er þess að geta að þegar er í gangi undirbúningur í atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti vegna nýs frumvarps um innstæðutryggingar á grunni Evróputilskipunar. Það á að leysa af hólmi ábyrgðaryfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um allsherjartryggingu á innstæðum sem gefin var í október 2008.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK