Hlutabréf í tæknirisanum Google hrundu í dag eftir að uppgjör þriðja ársfjórðungs leiddi óvænt í ljós að hagnaður var 20% minni en á sama tímabili í fyrra.
Hlutabréfin í félaginu hríðlækkuðu í dag en er markaðir lokuðu höfðu þau lækkað um 8%. Uppgjörið var óvart gefið út og afkoman sem það sýndi kom hluthöfum og sérfræðingum á Wall Street mjög á óvart.
Samkvæmt uppgjörinu var hagnaður félagsins á ársfjórðungnum 2,18 milljarðar dala en var 2,73 milljarður dala á sama tímabili í fyrra.
Google ætlaði ekki að gefa út afkomuna í dag og segir að um drög hafi verið að ræða sem hafi verið gefin út í leyfisleysi. Endanleg útgáfa uppgjörsins var gefin út skömmu síðar með nákvæmlega sömu afkomutölum. Eina breytingin var sú að búið var að bæta við viðbrögðum forstjórans í línu þar sem áður stóð: „Hér kemur setning frá forstjóranum.“
Larry Page, framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að staða Google hafi verið sterk á árinu. Tekjur fyrirtækisins, sem er nú 14 ára gamalt voru 14,1 milljarður dala.