Dulið atvinnuleysi er 1,6 prósentustigum hærra en það sem Vinnumálastofnun mælir og sá góði gangur sem hefur verið í að lækka atvinnuleysi gæti verið í hættu vegna kólnunar í hagkerfinu. Þetta segir greiningardeild Arion banka, en þar er bent á að einskiptiaðgerðir eins og vaxtaniðurgreiðslur og úttekt séreignasparnaðar sé að ljúka og með því séu líkur á að dragist úr einkaneyslu. Þetta getur haft áhrif á hagvöxtinn, en einkaneyslan hefur síðustu ár vegið þar þungt, og um leið snúið við atvinnuleysistölum.
Þegar tölur frá Vinnumálastofnun eru skoðaðar kemur í ljós að atvinnuleysi var í upphafi þriðja ársfjórðungs 4,8%. Að viðbættum þeim fjölda sem er í vinnumarkaðsúrræðum og þeim sem fá fjárhagsaðstoð frá sveitafélögum er atvinnuleysi nær 6,4% samkvæmt greiningardeildinni.
Bent er á að þótt atvinnuleysistölur séu að lækka, þá sé atvinnuþátttakan einnig að lækka, það er vinnuafl sem hlutfall af mannfjölda. Því virðist sem fólk á vinnufærum aldri sé í auknum mæli að detta út úr vinnuaflinu, svo sem með því að fara í nám, flytja úr landi eða að fara á bætur aðrar en atvinnuleysistryggingar. Tekið er fram að þetta þurfi ekki að vera slæmt, til dæmis ef einstaklingar fari í nám og muni skila sér til baka á vinnumarkaðinn með meiri framleiðni.
Á síðustu sjö ársfjórðungum hefur mælst hagvöxtur hérlendis og á sama tíma hefur aukin eftirspurn eftir vinnuafli haft áhrif til lækkunar á atvinnuleysistölur. Greiningardeildin bendir þó á að nú séu vísbendingar um að hægja sé á vextinum, en meðal annars hefur kortavelta dregist saman á síðustu ársfjórðungum, en það er almennt góður mælikvarði á þróun einkaneyslu.
Einstaklingar hafa síðustu ár getað tekið út séreignasparnað og notið vaxtaniðurgreiðslna. Nú sér fyrir endann á því tímabili og þar með gætu einstaklingar einnig dregið úr einkaneyslu, en þessar aðgerðir hafa aukið umráðafé almennings. Greiningardeildin bendir á að koma þurfi til frekari fjárfestinga og ná upp sjálfbærum hagvexti til að hagkerfið nái sér á strik og þurfi ekki að treysta á tímabundnar einskiptiaðgerðir.