Íslandsbanki hefur gefið út nýjan flokk sértryggðra skuldabréfa. Um er að ræða óverðtryggða útgáfu, 3 ára flokk, ISLA CB 15 að upphæð 1,24 milljörðum íslenskra króna á ávöxtunarkröfunni 6,5%. Bréfin bera 6,4% vexti greidda tvisvar á ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.
Bréfin voru seld til breiðs hóps fagfjárfesta og var heildareftirspurnin 1,93 milljarðar, en 64% tilboða var tekið að upphæð 1,24 milljörðum. Stefnt er á að bréfin verði tekin til viðskipta í Nasdaq OMX Iceland þann 25. október næstkomandi. Viðskiptavakt fyrir alla flokka sértryggðra skuldabréfa Íslandsbanka er á vegum MP banka.
Bréfin eru gefin út samkvæmt lögum númer 11 frá 2008 um sértryggð skuldabréf þar sem strangar kröfur eru gerðar til útgefenda. Tryggingasafnið að baki skuldabréfunum skal standast sérstök vikuleg álagspróf með tilliti til vaxta og gengis gjaldmiðla. Þá hefur Fjármálaeftirlitið sérstakt eftirlit með útgáfunni, auk þess sem sjálfstæður skoðunarmaður sinnir eftirliti.