Theo Hoen, forstjóri Marel, og Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marel, munu hringja opnunarbjöllunni á Nasdaq markaðnum á Time Square í New York á morgun. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, verður með í för og mun bjóða forstjóra, stjórnarformann og aðra fulltrúa Marel ásamt gestum þeirra velkomna.
Útsending verður á vefsíðu Nasdaq, en hún mun hefjast klukkan 13:15 að íslenskum tíma. Fyrst munu ræður fara fram, en klukkan 13:30 munu viðskiptin verða hringd inn.
Marel er í hópi stærstu útflutningsfyrirtækja Íslands og er í fararbroddi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á háþróuðum búnaði og kerfum til vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi segir í yfirlýsingu frá félaginu. Fyrirtækið starfrækir skrifstofur og dótturfyrirtæki í meira en 30 löndum, auk 100 umboðsmanna og dreifingaraðila.
Í yfirlýsingu telur Theo Hoen, forstjóri Marel, meðal annars upp nýsköpun og hugvitssemi sem ástæðu velfarnaðar síðustu áratuga. „Skýr framtíðarsýn, nýsköpun og sókn á nýja markaði. Á þetta hefur Marel lengi lagt áherslu og það hefur skilað félaginu í fremstu röð. Við þökkum starfsfólki okkar dugnað og hugvitssemi og viðskiptavinum farsælt samstarf. Þá þökkum við hluthöfum dyggan stuðning og kauphöllinni góð samskipti á liðnum árum.” Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marel segir við sama tækifæri að Marel hafi á 20 árum, frá skráningu, vaxið í að verða að „alþjóðlegum leiðtoga í spennandi atvinnugrein með um 4000 starfsmenn og starfsemi í um 40 löndum“.
Páll Harðarson, forstjóri NASDAQ OMX Iceland segir að þessi áfangi sýni fram á áhrif skráningar á markað fyrir fyrirtæki eins og Marel. „Við óskum Marel hjartanlega til hamingju með þennan áfanga. Marel hefur sýnt fram á hvaða þýðingu það getur haft fyrir reksturinn að vera skráð fyrirtæki. Frumkvöðlakraftur og skýr framtíðarsýn hafa einkennt þetta öfluga fyrirtæki.“