Þeir lántakendur sem hafa greitt fulla greiðslu af endurútreiknuðum erlendum lánum og ekki nýtt sér nein úrræði munu sjá mesta lækkun eða jafnvel endurgreiðslu frá bönkunum. Þetta segir Guðmundur Ingi Hauksson, verkfræðingur hjá Veritas ráðgjöf, sem hefur staðið í útreikningum á lánum síðan Árna Páls-lögin voru samþykkt og endurútreikningur erlendra lána var miðaður við vexti Seðlabankans. Í gær féll dómur í Hæstarétti sem kveður á um að ekki megi breyta vöxtum á lánunum afturvirkt og gilda samningsvextir á móti fullnaðarkvittunum.
„Eftir fyrsta dóminn í júní 2010 og Árna Páls-lögin, en þar vorum við ósammála um aðferðarfræðina, þá reiknuðum við allar okkar niðurstöður út frá bankaleiðinni (Árna Páls-lögunum) og Veritas-leiðinni sem núna hefur verið staðfest fyrir Hæstarétti.“ Guðmundur segir að þarna geti oft munað heilmiklu á niðurstöðunni og telur ljóst að það þurfi að endurreikna öll lán aftur.
Hann segir þennan dóm vera það skýran að hann taki á flestum óvissuþáttum og að fordæmið muni valda því að fá eða engin mál þurfi að höfða í kjölfarið til að fá úr því skorið hvaða vexti eigi að nota.
Um töluverðar upphæðir getur verið að ræða, en Guðmundur telur að nýr endurútreikningur geti lækkað lánin um nokkra tugi prósenta. „Að jafnaði munar á milli 20 til 30%, jafnvel upp í 40%, miðað við það sem bankarnir reiknuðu.“ Segir hann mestu muna þar sem greidd hafi verið full greiðsla og vextir, en minna hjá þeim sem þáðu úrræði eða greiddu ekki.
Hingað til hefur Veritas ráðgjöf reiknað yfir 200 mál og segir Guðmundur að þau hafi öll komið út í hag lántaka og segir hann ólíklegt að málið geti farið á annan veg. Aðspurður hvaða félög muni mestan hag bera af þessum dómi segir hann að stærsta breytingin verði fyrir fyrirtæki með þungan efnahagsreikning og nefndi í því samhengi fasteignafélög og félög sem væru í eigin eign.
Í dag hafa bæði Landsbankinn og Arion banki gefið frá sér yfirlýsingu um málið þar sem sagt er frá því að ákveðin álitamál séu enn óútkljáð. Samkvæmt heimildum mbl.is er líklegt að þar sé aðallega átt við mál þar sem ekki liggur fyrir fullnaðarkvittun fyrir greiðslu, eða að mál hafi verið í vanskilum eða lántakar þegið úrræði hjá bönkunum. Einnig sé talað um í dómnum sem féll í gær að vaxtamunurinn þurfi að vera verulegur.
Guðmundur Ingi segir að „bankarnir hafa markvisst búið til óvissu og dregið fordæmisgildi þessara tveggja mála í efa og með því hægt á endurreisn atvinnulífsins.“ Þessar yfirlýsingar ýti enn frekar undir það. Hann bendir þó á að óbeinar afleiðingar dómsins, til dæmis gagnvart félögum sem sett hafi verið í þrot eða þar sem eignarhlutur hefur verið þynntur, geti verið töluverðar. Segir hann að þar hafi uppgjör verið byggt á ólögmætum endurútreikningi.