Grétar Berndsen og Árni Þór Vigfússon opnuðu fyrr á árinu nýjan skyndibitastað í Stokkhólmi sem hefur fengið góðar móttökur. Hugmyndin var að gera veitingastað með hraðri afgreiðslu en hollum asískum réttum. Í samtali við mbl.is sagði Grétar að fyrst um sinn ætti að slípa staðinn og reksturinn, en fljótlega yrði farið í að opna fleiri staði í Svíþjóð.
Veitingastaðurinn heitir Noodle Mama og er staðsettur í Kungsholmen, ekki langt frá aðalbrautastöðinni í Stokkhólmi og segir Grétar að þeir stóli aðallega á hádegisumferðina, en einnig sé staðurinn þannig staðsettur að margir taki með sér mat á leiðinni heim eftir vinnu. Eins og nafnið gefur til kynna eru núðlur í aðalhlutverki, en hann segir að staðurinn sérhæfi sig aðallega í núðlusúpum og salati. Í dag annar staðurinn um 200 viðskiptavinum, en Grétar segir að hugmyndin sé að það muni aukast töluvert á næstunni, en stærð hans er um 65 fermetrar.
Hann segir hugmyndina á bak við staðinn fyrst hafa komið frá Árna og konunni hans, Mariko Margréti Ragnarsdóttur, sem sé hálfjapönsk og það hafi haft töluverð áhrif á uppbyggingu og ásýnd staðarins. „Hugmyndafræðin gengur aðallega út á að gera veitingastað þar sem er mjög hröð og snörp þjónusta, eins og þekkist frá skyndibitastöðum, en að maturinn sé hollur.“
Það vekur fljótt athygli að markaðsframsetning staðarins gerir út á tilvísanir í popp-menningu, svo sem vinsæla tónlistarmenn og kvikmyndir. Myndefnið er þó fært töluvert í stílinn og blandað við gleðilegt yfirbragð staðarins. Meðal annars er notast við japanska aðlögun að Abbey Road-plötuumslagi Bítlanna. Þetta er í samræmi við slagorð staðarins sem er „Skemmtilegur og heilsusamlegur matur“ (e. happy healthy eating).
Þeir Grétar og Árni fengu ungan sænskan kokk til samstarfs við sig, en hann heitir Eric Gustavsson og segir Grétar að þeir hafi sérstaklega leitað að aðila sem væri hugmyndaríkur og nýstárlegur, enda þurfi slíkan aðila til að gera núðlusúpur sem nái sérstöðu.
Aðspurður hvort auðvelt sé að fá Svía til að hefja viðskipti við nýjan veitingastað segir Grétar að það geti verið nokkuð erfitt, enda séu Svíar stífir og íhaldssamir að þessu leyti. „Þeir eru mjög stífir og íhaldssamir. Þeir fara allir í mat á sama tíma, þannig að veitingastaðir eru allir pakkaðir með röð í hádeginu, en svo er nánast steindautt þar sitthvorum megin við.“ Hann segir Svía einnig vera gríðarlega kröfuharða og hugsa mikið um meðal annars næringarinnihald og kaloríur, það þurfi því bæði sérstöðu og tíma til að vinna fólk á sitt band. Staðurinn hefur aftur á móti fengið góða dóma á netinu hjá hinum ýmsu aðilum, svo sem í Aftonbladet, og það hjálpi mikið til.
„Við munum taka okkur nokkra mánuði í að klára þetta þannig að fyrirmyndin sé mjög góð, en ef það gengur eins vel og hingað til, þá förum við innan sex mánaða í næsta stað og hugmyndin er að opna 2 til 3 á ári ef vel gengur.“ Segir Grétar að stefnan verði áfram bara á staðsetningu innan Svíþjóðar.
Grétar hefur áður komið að veitingahúsarekstri, en áður en hann flutti fyrir um ári til Svíþjóðar var hann framkvæmdastjóri Cafe París í Reykjavík. Árni hefur komið víða við, en er hvað þekktastur fyrir að hafa verið sjónvarpsstjóri Skjás eins, en seinna meir rak hann í samstarfi við Kristján Ra Kristjánsson leikhúsfyrirtækið 3 Sagas, sem stóð á bak við rekstur þriggja leikhúsa í Stokkhólmi.