Dómur Hæstaréttar í máli nr. 646/2012, sem varðar annað fjármálafyrirtæki en Lýsingu, fjallar um undantekningartilvik um að fullnaðarkvittanir gangi framar meginreglu um fullar efndir samkvæmt samningum.
Til að undantekningarreglan eigi við þurfa tiltekin skilyrði að vera fyrir hendi, skv. forsendum dómsins. Lýsing telur að þeim skilyrðum sé ekki fullnægt hvað snertir samninga félagsins, segir í frétt frá fyrirtækinu.
„Dómurinn snýr að afmörkuðu máli og afmarkaðri kröfugerð. Fram hefur komið í yfirlýsingum um málið frá öðrum fjármálafyrirtækjum, m.a. málsaðila í framangreindu dómsmáli, að enn ríki óvissa um ýmis atriði sem þarf að eyða til að endurútreikningur geti farið fram.
Nokkur dómsmál um svokölluð gengislán eru í farvatninu og þingfesti Lýsing m.a. flýtimeðferðarmál í sumar um samning félagsins og væntir dóms innan skamms tíma. Þegar niðurstöður álitaefna liggja fyrir og ef þær gefa tilefni til mun endururútreikningur fara fram,“ segir í frétt Lýsingar.