WOW air hefur í dag tekið yfir allan flugrekstur og áætlunarflug Iceland Express. Lítil sem engin röskun verður á flugi þeirra sem pantað hafa farmiða með Iceland Express, en WOW air mun tryggja að staðið verði við allar skuldbindingar gagnvart þeim. Tilkynning um þetta mun koma fljótlega. Skúli Mogensen verður forstjóri hins sameinaða félags.
Fram kemur í tilkynningu frá félaginu, að ekki sé um sameiningu að ræða heldur taki WOW air aðeins yfir leiðakerfi, vörumerki og viðskiptavild Iceland Express og fær jafnframt aðgang að þeirri þekkingu sem myndast hefur í félaginu á liðnum árum. Gert er ráð fyrir að hluta starfsfólks Iceland Express verði boðin störf hjá WOW air og eru lykilstarfsmenn þar á meðal. Félagið verði framvegis undir merkjum WOW air þar sem áfram verði lögð áhersla á skemmtilega þjónustu, aukið sætabil og alltaf verði boðið upp á lægsta verðið í flugsamgöngum til og frá Íslandi. Með þessum kaupum verði til mjög öflugt íslenskt lággjaldaflugfélag með nýjum áfangastöðum og mun meiri tíðni ferða.
„Við erum virkilega ánægð með kaupin og bjóðum farþega Iceland Express hjartanlega velkomna um borð. Iceland Express hefur verið brautryðjandi lággjaldaflugfélag á Íslandi og var stundvísasta flugfélagið á Íslandi síðastliðið sumar. Þessi kaup munu stórefla starfsemi WOW air og tryggja að við getum áfram boðið lægsta verðið og frábæra þjónustu. Við munum samstundið geta stóraukið tíðni okkar á ferðum til London og Kaupmannahafnar og jafnframt tryggt aukið framboð og nýja áfangastaði næsta sumar. Ég hlakka svo sannarlega til að halda áfram að stuðla að öflugri og fjölbreyttari ferðaþjónustu á Íslandi og vil nota tækifærið og þakka fyrir þær frábæru viðtökur sem WOW air hefur fengið frá öllum þeim fjölda farþega sem hafa flogið með okkur undanfarna mánuði,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, í tilkynningu.
Í kjölfarið mun WOW bjóða strax upp á aukna tíðni til London og Kaupmannahafnar ásamt flugi í vetur til Berlínar, Salzburg yfir skíðatímabilið og Varsjár og Kaunas yfir jólin, að því er fram kemur í tilkynningu.
Frá og með næsta vori verður WOW air með fjórar A320 Airbus vélar og býður upp á 400.000 sæti til og frá Íslandi. Sumaráætlun félagsins verður til fimmtán áfangastaða í Evrópu; London, Kaupmannahafnar, Parísar, Amsterdam, Barcelona, Milano, Zurich, Stuttgart, Dusseldorf, Berlínar, Lyon, Alicante, Frankfurt, Vilnius og Varsjár. Samhliða fjölgun áfangastaða mun tíðni flugferða á marga áfangastaði stóraukast, segir ennfremur í tilkynningunni.
Tekið er fram að kaupin séu háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.