WOW air hefur keypt flugrekstur Iceland Express og eftir kaupin er einungis eitt lággjaldaflugfélag starfandi á Íslandi. Kaupin skapa óvissu um framtíð starfsfólks IE.
„Þetta er í rauninni atriði sem við munum flýta eins mikið og við mögulega getum, að fara í gegnum öll starfsmannamál. Þannig að það er mikil vinna framundan í því þar sem við munum leggja áherslu á að ræða við alla,“ sagði Skúli Mogensen, forstjóri WOW air.
Í yfirlýsingu félagsins í gær segir: „Ekki er um sameiningu að ræða heldur tekur WOW air aðeins yfir leiðakerfi, vörumerki og viðskiptavild Iceland Express og fær jafnframt aðgang að þeirri þekkingu sem myndast hefur í félaginu á liðnum árum. Gert er ráð fyrir að hluta starfsfólks Iceland Express verði boðin störf hjá WOW air og eru lykilstarfsmenn þar á meðal.“
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segist Skúli ekki vita hversu margir eða hvaða starfsmenn færist yfir til WOW air.