Marel skilaði 8,4 milljón evra hagnaði eftir skatta á þriðja ársfjórðungi, en það er lækkun frá 10,5 milljóna hagnaði á sama tíma í fyrra. EBITDA var 20,5 milljónir evra, sem er 12,5% af tekjum. Tekjur félagsins lækkuðu um 2,8%, en þær voru 154,3 milljónir evra á ársfjórðungnum. Staða pantanabókar Marel nam 151 milljón evra í lok fjórðungsins en var við 196,8 í lok þriðja ársfjórðungs 2012. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.
Theo Hoen forstjóri segir að niðurstaðan sé viðunandi en er bjartsýnn á framtíðina. „Markaðsaðstæður á árinu hafa verið krefjandi og niðurstöður síðustu tveggja ársfjórðunga voru undir væntingum okkar. Miðað við aðstæður megum við þó vel við una. Vöxtur á árinu er umtalsverður, rekstrarhagnaður er nærri 9% af veltu og við gerum ráð fyrir að ná fyrri arðsemi aftur innan tíðar.“
Segir hann mikla lækkun í pantanabók félagsins stafa af töfum vegna efnahagsástandsins. „Tímasetning stórra pantana hefur ávallt áhrif á stærð pantanabókarinnar sem nú stendur í 151,4 milljónum evra. Viðskiptavinir Marels eru almennt að kljást við erfitt efnahagsástand en auk þess hærra fóðurverð. Þetta hefur leitt til tafa á fjárfestingum, bæði í einstökum tækjabúnaði og stærri vinnslukerfum sem og varahlutum og þjónustu.“