Þrátt fyrir mikið fall í hruninu hefur uppgangurinn verið þokkalegur hérlendis ef miðað er við ríki Evrópu og OECD. Ísland er ofarlega þegar litið er til hagvaxtar og lítils atvinnuleysis, en á móti kemur að fá ríki eru eins miklir verðbólgutossar og við. Þetta kemr fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka.
„Landinu er spáð fimmta mesta meðalhagvexti ríkja Evrópu í ár og á næsta ári, eða tæplega 3%. Aðeins Tyrkland og Eystrasaltsríkin eiga meiri vöxt inni, en þar er um hálfgerð nýmarkaðsríki að ræða sem eiga að öðru jöfnu meiri vöxt vísan en þróuð ríki, auk þess sem Eystrasaltsríkin eru að stíga upp úr mun dýpri kreppu en Íslendingar og eiga því hugsanlega meiri ónýtta framleiðslugetu inni af þeim sökum.
Þetta er svipuð sýn og birtist í hagspá OECD í sumar, en þar sást glöggt að þrátt fyrir að einna stærsta höggið hafi komið á Ísland meðal OECD-ríkja í samdrættinum 2008-2010, þá séu batahorfurnar jafnframt vel yfir meðallagi.
Atvinnuleysi á Íslandi verður einnig í minni kantinum í Evrópu, eða rétt tæplega 6% að meðaltali út næsta ár. Hér þarf þó að athuga að atvinnuleysi er að jafnaði mun minna hér á landi en annarstaðar í Evrópu. Jafnvel þótt Ísland komi þannig vel út í samanburði við önnur ríki er ekki þar með sagt að ástandið sé í blóma á íslenskan mælikvarða.
Þótt Ísland sé á forsetalistanum þegar kemur að hagvexti og vel yfir meðaleinkunn þegar kemur að atvinnuleysi, þá er landið þó tossi þegar kemur að verðbólgu, en spáð er að hún verði um 5% að meðaltali út árið 2013. Aðeins er spáð meiri verðbólgu í Serbíu og Tyrklandi.“