WOW air hefur sent frá sér tilkynningu vegna umræðna sem spunnist hafa um það hvernig félagið sé skilgreint. Það var vefsíðan túristi.is sem vakti máls á því að ekki væri rétt að tala um að WOW air hefði tekið yfir flugrekstur Iceland Express og benti í tilmæli frá Flugmálastjórnar um að aðeins þeir sem reka loftför í atvinnuskyni geti kallað sig flugrekendur.
Í tilkynningunni segir meðal annars: „WOW air er flugfélag og WOW travel er ferðaskrifstofa sem hafa það að leiðarljósi að veita viðskiptavinum heildarlausn þegar það kemur að ferðum til og frá Íslandi.“ Auk þess er það ítrekað að WOW air muni í einu og öllu standa við allar skuldbindingar gagnvart farþegum Iceland Express.
Haft er eftir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, að hann hann telji það tímaskekkju að tala eingöngu um flugrekstur. „Í raun er það liðin tíð fyrir flugfélag að selja eingöngu flugsæti og því tímaskekkja að tala eingöngu um flugrekstur og er ég því sammála Flugmálastjórn í þeim efnum og vil þakka þeim fyrir að vekja athygli á því að við getum skilgreint betur okkar starfsemi. WOW air er vissulega flugfélag sem hefur það að markmiði að veita okkar viðskiptavinum heildarferðaþjónustu hvort sem þeir sækist eftir flugi, hóteli, pakkaferðum eða öðru.“