Tveir háttsettir stjórnendur hjá Apple voru látnir taka pokann sinn í gær, en engin formleg skýring var gefin á brotthvarfi þeirra. Talið er víst að rekja megi uppsagnirnar til vandræðagangs í starfsmannamálum Apple verslananna og við innleiðingu kortakerfis fyrirtækisins, en það var tekið í notkun á símum og spjaldtölvum, en svo fljótlega tekið út aftur vegna kvartana viðskiptavina.
Það eru þeir Scott Forstall, yfirmaður iOS kerfisins og John Browett yfirmaður verslana sem munu hverfa frá fyrirtækinu. Þetta kemur fram í frétt The New York Times, en Forstall kom til fyrirtækisins árið 1997 með Steve Jobs frá Next. Hann er sagður vera einn af aðalhönnuðunum á bak við Mac OS X, en á síðustu misserum hefur hann stjórnað hugbúnaðarvinnu fyrir iPhone símana og iPad spjaldtölvurnar.
Í fréttinni segir að Forstall hafi haft svipaða sýn á hönnun og tæknimál og Steve Jobs, en eftir andlát hans hafi spennan magnast milli Forstall og annarra yfirmanna í fyrirtækinu. Þegar óánægjubylgja reiðra viðskiptavina vegna kortakerfis fyrirtækisins hafi riðið yfir hafi því margir séð þar færi á að setja hann til hliðar og það hafi nú verið gert. Forstall mun áfram starfa sem ráðgjafi fyrir Tim Cook, forstjóra Apple, fram á næsta ár.
Browett kom aftur á móti til Apple frá bresku raftækjakeðjunni Dixons í apríl á þessu ári, en nokkrar slæmar uppákomur eru taldar ástæða þess að hann sé látinn fara svo fljótlega. Er meðal annars nefnt að niðurskurður í starfsmannafjölda verslana fyrirtækisins hafi ekki gengið eftir sem skildi og það hafi svo komið í bakið á fyrirtækinu þegar það fréttist út.