Vísbendingar eru um að staða vinnumarkaðarins fari batnandi og meðal annars fer fjölda starfandi fjölgandi, en það er nú 77,1%. Hið alvarlega við atvinnuþróunina þessa dagana er að langtíma atvinnulausum er að fjölga en þeir sem hafa verið atvinnulausir í 12 mánuði eða lengur er skilgreindir sem langtímaatvinnulausir.
Á þriðja ársfjórðungi 2012 voru 3.300 sem höfðu verið atvinnulausir í tólf mánuði eða lengur eða 35,6% allra atvinnulausra. Á sama tíma í fyrra voru þeir 3.100 eða 29,1% atvinnulausra. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.
Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands fækkaði atvinnulausum um 1.500 manns á þriðja fjórðungi ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Þá mældist atvinnuleysi á fjórðungnum 5,0% og hefur það ekki verið lægra á þriðja ársfjórðungi síðan árið 2008. Á sama ársfjórðungi í fyrra var atvinnuleysi 5,9%. Hagstofan áætlar að 9.200 manns hafi verið atvinnulausir á þriðja ársfjórðungi þessa árs en til samanburðar var þessi fjöldi 10.700 á sama tíma í fyrra.
Greiningardeildin gerir ráð fyrir að atvinnuleysi haldi áfram að dragast saman á næstu misserum. Nýleg könnun Samtaka Atvinnulífsins gefi til kynna að störfum á almennum vinnumarkaði gæti fjölgað á næsta ári. Þannig segja 22% fyrirtækja sem könnunin nær til ætla að fjölga starfsfólki á næstu 12 mánuðum en 19% ætla að fækka. Langstærstur hluti fyrirtækja býst við að halda óbreyttum starfsmannafjölda á sama tímabili eða 59% fyrirtækja. Þegar frekari útlistun á fyrirtækjunum er skoðuð kemur í ljós að fjölgun starfsmanna má vænta í iðnaði og mannvirkjagerð, ferðaþjónustu og fjármálaþjónustu en í þessum atvinnugreinum búast fleiri fyrirtæki við fjölgun starfsmanna en fækkun þeirra.