Sala á nýjum bílum á Spáni hefur hríðfallið á þessu ári og er 11,9% lægri á fyrstu 10 mánuðunum miðað við í fyrra. Sala í október var 21,7% lægri en í sama mánuði í fyrra, en þetta kemur í kjölfarið á 17,7% samdrætti í fyrra og því ljóst að Spánverjar draga mikið saman seglin á þessum vettvangi nú þegar illa árar í efnahagslífinu.
Bílaiðnaðurinn er þó bjartsýnn eftir að spænska ríkið samþykkti 75 milljóna evru verkefni sem niðurgreiðir verð til einstaklinga sem kaupa sparneytna bíla og skila inn bílum sem eru orðnir eldri en 12 ára. Geta einstaklingar fengið allt að 2000 evru endurgreiðslu vegna þessa.
Á Spáni eru 18 bílaverksmiðjur og það er aðeins í Þýskalandi sem fleiri bílar eru framleiddir í Evrópu.