Hægt er að greina samhengi í notkun orðsins „kreppa“ og því að það sé raunverulega samdráttarskeið í hagkerfinu. Þetta sýnir staðfærsla greiningardeildar Arion banka á svokallaðri K-orðs vísitölu (e. R-word index) sem breska vikublaðið The Economist hafði áður gert. Þar er talið hversu margar fréttir eða greinar innihalda orðið „kreppa“ (e. recession) á gefnu tímabili. Þrátt fyrir nokkuð ófullkomna rannsóknaraðferð bendir greiningardeildin á að aðferð The Economist hafi iðulega spáð fyrir um meiriháttar samdráttarskeið vestanhafs.
Greiningardeild Arion banka notaðist við upplýsingar frá öllum íslenskum prent- og ljósavakamiðlum. Eftir að vísitalan hafði legið mjög lágt í uppganginum í aðdraganda bankahrunsins tók hún að hækka áberandi mikið frá ársbyrjun 2008, og gaf þar með fyrirheit um atburði haustsins. Þegar bankarnir féllu tók vísitalan svo stökk þegar meira en 700 kreppufréttir birtust í einum mánuði
Á meðan samdrátturinn varði var vísitalan mun hærri en þegar allt lék í lyndi, en fljótlega eftir að samdrættinum lauk tók hún að lækka og hefur verið um eða undir 100 stigum frá ársbyrjun 2011. Segir greiningardeildin að K-orðs vísitalan bendi því ótvírætt til þess að efnahagsbatinn sé á réttri leið.
Það er þó tekið fram að vísitalan er ófullkomin og að margt geti brenglað hana. Í fyrsta lagi tekur hún ekki tillit til fjölda þeirra fjölmiðla sem flytur fréttir. Einhverjir fjölmiðlar sem störfuðu á fyrri hluta tímabilsins hafa til dæmis lagt upp laupana og í einhverjum tilfellum hafa aðrir komið í staðinn. Í öðru lagi er orðið kreppa stundum notað í öðru samhengi en efnahagslegu, og því er viðbúið að það sé notað reglulega í fjölmiðlum án þess að nokkuð ami að. Í þriðja lagi er hugsanlegt að orðið verði fólki tamara eftir mikinn samdrátt í efnahagslífinu og því sé tregða í notkun orðsins í kjölfar kreppu.
Skýringin á því af hverju svo einfaldur mælikvarði á fjölmiðlaumfjöllun endurspeglar samtímaumsvif í hagkerfinu jafn vel og raun ber vitni getur verið margþætt að mati greiningardeildarinnar. Í fyrsta lagi sjá fjölmiðlar oft efnahagstástandið berum augum, þeir greina til dæmis oft frá erfiðum aðstæðum fólks í skuldavanda, fjöldauppsögnum og svo framvegis. Í öðru lagi greina þeir frá hagmælingum mjög víða að og í þriðja lagi leita þeir iðulega viðhorfa fjölda sérfræðinga. Þannig getur hlutlægur mælikvarði á fjölmiðlaumfjöllun tekið saman í eina einfalda tölu fjölda heimilda um efnahagsástandið sem eiga rætur sínar að rekja mjög víða.