Októbermánuður var næststærsti útflutningsmánuður frá upphafi, sé litið fram hjá óreglulegum liðum á borð við skip og flugvélar, en útflutningur var 16,1% meiri en hann var í október í fyrra, reiknað á sama gengi. Vöruskiptaafgangur mánaðarins var 15,7 milljarðar, en það er tæplega tvöfalt meira en í október í fyrra. Samtals hefur vöruútflutningur aukist um 0,6% fyrstu tíu mánuði ársins á föstu gengi, en vöruskiptin á þessum mánuðum eru jákvæð um 85 milljarða, ef horft er framhjá óreglulegum liðum. Það er 10% lakari útkoma en á sama tíma í fyrra. Þetta kemur meðal annars fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.
Myndarlegur vöruskiptaafgangur nú í október skrifast alfarið á útflutning, sem var 16,1% meiri en hann var í október í fyrra, reiknað á sama gengi. Er þetta mun meiri vöxtur en verið hefur undanfarið, en sé tekið mið af fyrstu tíu mánuðum ársins þá hefur vöruútflutningur aukist um 0,6% frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi. Vöruinnflutningur jókst einnig í október frá sama mánuði í fyrra, eða sem nemur um 3,1% á föstu gengi, sem er nokkuð undir þeim 6,8% vexti á milli ára sem hefur að jafnaði verið í mánuði hverjum frá áramótum.
Októbermánuður er í raun næststærsti útflutningsmánuður frá upphafi, sé litið fram hjá óreglulegum liðum á borð við skip og flugvélar. Má rekja það hvort tveggja til þess að útflutningur sjávararafurða og iðnaðarvara var mjög mikill í mánuðinum. Þannig nam útflutningur sjávarafurða 29,1 milljarði króna í október, sem er 11,5% aukning frá því í október í fyrra reiknað á föstu gengi. Er þetta álíka stór mánuður í útflutningi sjávarafurða og september í fyrra, en hann var sá stærsti frá upphafi og nam þá útflutningur sjávarafurða 29,3 milljörðum króna reiknað á sama gengi. Útflutningur iðnaðarvara var einnig í meira lagi, en alls nam útflutningur þeirra 31,7 milljörðum króna í október sem er aukning upp á 24,1% milli ára. Að hluta er skýringin væntanlega takturinn í skipaferðum með ál, en álútflutningur var óvenju rýr í septembermánuði.
Hvað aukinn vöruinnflutning í október frá sama tíma í fyrra varðar munar mestu um að innfluttar neysluvörur jukust um 18,3% á föstu gengi og innflutt flutningatæki jukust um 51,3%. Jafnframt jókst innflutningur hrá- og rekstrarvara um 4,9% á föstu gengi og innflutningur mat- og drykkjarvara um 4,3%. Á hinn bóginn dróst innflutningur eldsneytis og smurolíu saman um 9,8% á föstu gengi og innfluttar fjárfestingavörur um 9,4%.