Hjá Hrafnhildi byrjaði smátt en hefur undið upp á sig

Þrír ættliðir í búðinni, Inga Árnadóttir (t.v.) Hrafnhildur Sigurðardóttir og …
Þrír ættliðir í búðinni, Inga Árnadóttir (t.v.) Hrafnhildur Sigurðardóttir og Ása Björk Antoníusdóttir sem rekur búðina í dag. Kristinn Ingvarsson

Í versluninni hjá Hrafnhildi eru alla jafna þrír ættliðir við leik eða störf, en þetta fjölskyldufyrirtæki á um þessar mundir 20 ára afmæli. Verslunin var upphaflega staðsett í heimahúsi í Fossvoginum, en flutti síðar yfir í stærra og hentugra húsnæði að Engjateig 5 þar sem verslunin er nú rekin. Tæplega 80 ár eru milli elsta og yngsta ættliðsins, en þær fara þó báðar reglulega á fatasýningar erlendis. Mbl.is ræddi við Ásu Björk Antoníusdóttur, verslunareiganda um sögu fyrirtækisins og tímamótin.

Öll herbergin notuð sem mátunaraðstaða

Verslunin var stofnuð árið 1992 af Hrafnhildi Sigurðardóttur á heimili fjölskyldu hennar við Sævarland í Fossvogi. Frá upphafi hefur aðaláherslan verið lögð á þýskan kvennafatnað, og á síðari árum hefur bæst við bæði ítalskur og þýskur skófatnaður. Ása er dóttir Hrafnhildar og segir að þegar móðir hennar hafi opnað verslunina hafi hún verið mjög smá í sniðum en reksturinn fljótt undið upp á sig. "Ég man sjálf eftir því þegar herbergið mitt var á milli tveggja verslanaherbergja heima í Sævarlandi. Ég var kannski heima í sjónvarpsherberginu og rakst þá á kennarana mína að versla" segir Ása, og oft þegar hamagangurinn var mestur, voru öll herbergi hússins nýtt sem mátunaraðstaða.

Árið 1996 var búðin búin að sprengja allt utan af sér og flutti niður á Engjateig 5. Ása segir að viðskiptahópurinn hafi alltaf verið breiður, og flestir komi þeir aftur og aftur. Einnig sé veitt töluverð þjónusta við konur út á landi. Árið 2000 var verslunin svo stækkuð enn frekar þegar önnur verslun sem fyrir var flutti sig um set. Með því varð verslunarrýmið hjá Hrafnhildi um 300 fermetrar. 

Áttræð og þriggja ára á fatasýningar erlendis

Aðeins fimmtug að aldri féll stofnandinn, Hrafnhildur Sigurðardóttir skyndilega frá, og tók þá eiginmaður hennar við versluninni allt til ársins 2008 þegar dóttirin Ása tók reksturinn í sínar hendur. Með henni starfar einnig móðir Hrafnhildar og amma Ásu, Inga Árnadóttir. Hún varð nýlega áttræð, en lætur ekki aldurinn stoppa sig og fer á 2 til 4 fatasýningar í Þýskalandi á hverju ári.

Með þeim Ásu og Ingu stendur svo Hrafnhildur Sigurðardóttir yngri, dóttir Ásu, vaktina þegar þannig liggur við. Hrafnhildur alnafna ömmu sinnar er þriggja ára gömul, en hefur frá upphafi fylgt móður sinni mikið í tengslum við reksturinn og fór meðal annars í sína fyrstu ferð á erlenda fatasýningu aðeins sex vikna gömul. Í versluninni, sem fljótlega fer að nálgast fullorðinsaldurinn í mannsárum talið, eru því saman komnir þrír ættliðir í dag, þó réttar væri að tala um að búðin hefði tilheyrt fjórum ættliðum gegnum árin 20.

Á fimmtudaginn verður haldið upp á afmælisveislu í búðinni með tilheyrandi afsláttarkjörum og segir Ása að opið verði fram til tíu um kvöldið.

Hjá Hrafnhildi fagnar 20 ára afmæli á fimmtudaginn.
Hjá Hrafnhildi fagnar 20 ára afmæli á fimmtudaginn. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK