Ljóst er að íslensk ferðaþjónusta nýtur góðs af lágu raungengi krónunnar, líkt og aðrar útflutningsgreinar, en ferðamenn eyða nú þrefalt meira í krónum talið á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við sama tímabil árið 2007. Fjölgun ferðamanna yfir þetta tímabil er 42% og því má draga þá ályktun að hver erlendur ferðamaður geri mun betur við sig hér á landi en hann gerði fyrir hrun. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka, en þar er erlend kortavelta hér á landi skoðuð í samanburði við fjölda ferðamanna.
Segir þar að þessi mikla breyting á gengi krónunnar hafi gert það að verkum að mun ódýrara sé fyrir erlenda ferðamenn að sækja landið heim en árin fyrir hrun, sem eðlilega hefur átt sinn þátt í þeirri gríðarlegu aukningu sem orðið hefur á erlendum ferðamönnum hér á landi. Sú þróun gæti þó snúist upp í andhverfu sína ef gengi krónunnar færi að styrkjast, en greiningardeildin telur það ansi ólíklegt næstu misserin eða jafnvel árin.