Fjármagn til fjárfestingaráætlunar fyrir árin 2013-2015 hefur verið tryggt, en áætlunin var lögð fram með fyrirvara um fjármögnun sl. vor.
Á blaðamannafundi í morgun kynntu fjármála- og efnahagsráðherra og varaformenn stjórnarflokkanna verkefni fyrir rúma sex milljarða kr. sem fá viðbótarfjármagn á fjárlögum til að skapa störf og efla fjárfestingu og vaxandi atvinnugreinar.
Þessi nýju verkefni koma til viðbótar fjármagni til samgöngubóta, nýsköpunar og rannsóknasjóða og sóknaráætlana landshluta sem veitt var í fjárfestingaráætlun í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi og fjármagnað var með tekjum af veiðigjöldum. Alls verður því yfir 10 milljörðum króna varið til verkefna á árinu 2013, í samræmi við fjárfestingaáætlun fyrir Ísland.
Markmiðið er aukin fjárfesting og fjölgun starfa, sem hefur jákvæð áhrif á hagvöxt og styrkir tekjugrunn ríkissjóðs.
Fjármögnun fjárfestingaáætlunarinnar er tvíþætt. Annars vegar er fjár til verkefna á sviði samgangna og rannsókna/þróunar aflað með veiðileyfagjaldi, en þau bættust við framkomna samgönguáætlun og voru samþykkt í júni. Fé til rannsóknarsjóða var svo aukið í fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram í haust. Hinsvegar eru verkefni sem lúta að eflingu vaxtargreina og fasteigna fjármögnuð með arði og eignasölu.
Tvö frávik eru frá áætluninni frá því hún var kynnt í vor. Annars vegar er ekki komin niðurstaða í flýtingu viðhaldsverkefna á vegum Fasteigna ríkisins. Hins vegar er gert ráð fyrir að fjármögnun Íbúðalánasjóðs vegna leiguíbúða kalli ekki ein og sér á eiginfjárframlag á þessu stigi. Málefni Íbúðalánasjóðs og þörf fyrir aukið eigið fé eru til sérstakrar skoðunar og verður horft til uppbyggingar leiguíbúða í því samhengi.