80% af seldum fatnaði tvítolluð

Íslendingar hafa löngum verið duglegir að versla á Oxford Street …
Íslendingar hafa löngum verið duglegir að versla á Oxford Street í London. Ómar Óskarsson

Um 80% af fatnaði sem keyptur er á Íslandi eru tvítolluð vegna skriffinnsku við að fá tolla endurgreidda þegar vörur eru keyptar frá Evrópusambandinu sem framleiddar eru utan þess. Of mikil skriffinnska kemur í veg fyrir að sótt er um endurgreiðslu á tollinum. Þetta er meðal þess sem Samtök atvinnulífsins ætla að kynna á fundi í Hörpu á morgun.

Almennur tollur á fatnað er 15%, en það segir þó ekki alla söguna vegna þess að mjög stór hluti þess fatnaðar sem er til sölu á íslenskum markaði er framleiddur í „þriðju ríkjum" (að jafnaði í ríkjum Suðaustur Asíu). Í tilkynningu frá samtökunum segir að fatnaðurinn sé fluttur inn frá birgjum í einhverju aðildarríkja Evrópusambandsins, en Evrópusambandið leggur 15% toll á allan fatnað sem framleiddur er utan þess. Þegar vara sem ber slíkan toll er flutt aftur út úr Evrópusambandinu fæst þessi tollur endurgreiddur.

Það gerist hins vegar nær aldrei vegna þess að umsókn um endurgreiðslu er mjög flókin í framkvæmd og kallar á mikla skriffinnsku. Af þeim ástæðum fást birgjar íslenskra fatainnflytjenda ekki til þess að sækja um þessa endurgreiðslu og vegur smæð íslenska markaðarins þungt í því efni.

Vegna þessa telja samtökin að um það bil 80% af þeim fatnaðir sem er til sölu á íslenskum markaði beri þannig tvöfaldan toll, hinn 15% almenna toll sem lagður er á allan innfluttan fatnað og 15% ytri toll sem Evrópusambandið leggur á við innflutning til aðildarríkja þess. Stór hluti innflutts fatnaðar ber því ríflega 30% toll, sem við bætist 25,5% virðisaukaskattur.

Jafnframt er bent á að fatakaup Íslendinga fari að stórum hluta fram erlendis vegna hárra tolla og virðisaukaskatts. Helstu lönd sem Íslendingar kaupa föt erlendis er í Bretlandi og Bandaríkjunum. Í Bretlandi er enginn barnafatnaður engan virðisaukaskatt og í Boston í Bandaríkjunum er söluskattur aðeins 8%. Segja samtökin því samkeppnisstöðu íslenskrar fataverslunar ekki góða hvað þetta varðar, enda sýni nýlegar kannanir að um 35% af fatainnkaupum Íslendinga fari fram erlendis.

Því leggja Samtök atvinnulífsins til að 15% tollur á fatnað innfluttan frá Evrópusambandslöndum, með upprunaland utan þess, verði felldur niður. Það muni stuðla að því að hluti fataverslunar landsmanna flyttist til landsins og auknar tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti myndu vega upp á móti tekjutapi vegna niðurfellingar tollsins.

Á mjög einfaldaðan hátt má gera sér í hugarlund að þessi aukatollur kosti Íslenska neytendur um 2 milljarða á ári, en samkvæmt tölum Rannsóknaseturs verslunarinnar var sala á fötum hérlendis um 22 milljarðar á síðasta ári. Ef miðað er við 100% meðalálagningu í fataverslun hérlendis, sem samkvæmt heimildum mbl.is er ekki fjarri lagi þegar útsöluverð er tekið með í reikninginn, þá gæti heildarverð til neytenda lækkað niður í rúmlega 19,7 milljarða í stað 22 milljarða.

Íslendingar eru duglegir að fara til útlanda og versla föt
Íslendingar eru duglegir að fara til útlanda og versla föt AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK