„Við erum allt of lítillát. Við erum nefnilega ekki að biðja um neitt annað en að rekstrarumhverfi íslenskrar verslunar verði samkeppnishæft við það sem verslun í helstu nágrannalöndum okkar býr við.“ Þetta var meðal þess sem kom fram á fundi Samtaka atvinnulífsins í Hörpunni í morgun, en yfirskrift fundarins var „Ræktun eða rányrkja“. Framsögumenn voru allir sammála því að gengið hefði verið of hart gegn atvinnulífinu á síðustu árum og að komið væri að því að skera niður í skattakerfinu svo hér gæti verið heilbrigð samkeppni við erlenda aðila og að ákjósanlegt væri að fjárfesta hér.
Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, átti orðin hér að ofan, en hún kallaði einnig eftir því að íslensk verslun eignaðist bandamann innan Alþingis. Sagði hún að flokkarnir væru venjulega duglegir að lofa ýmsu þegar þeir væru í stjórnarandstöðu, en að engu sé breytt þegar þeir komist í stjórn.
Nefndi hún tvö mál sem nauðsynlegt væri að koma til leiða fyrir verslun í landinu, þótt hún segði málin vera mun fleiri. Í fyrsta lagi væri tvítollun á meirihluta þess fatnaðar sem seldur er hérlendis, eins og mbl.is greindi frá í gær. Sagði hún að vegna smæðar Íslandsmarkaðar og þar sem flestar verslanir væru ekki nægjanlega stórar til að gera beinar pantanir frá Asíu kæmi til tvítollunar þegar vörur færu gegnum Evrópusambandið. Vegna fyrrgreindrar smæðar innkaupsaðila segja flestir birgjar í Evrópu það ekki borga sig að standa í skriffinnsku við að sækja um endurgreiðslu tollsins og því endar það með tvítollun fyrir vörur sem koma hingað til lands.
Í öðru lagi nefndi Margrét vörugjöld, en að í þeim flokki hefði loksins, eftir tveggja áratuga baráttu, verið gerð endurskoðun fyrr í ár. Sagði hún margt gott hafa komið þar fram, svo sem leiðréttingu á flokkun raftækja og nefndi sem dæmi að nú væru vöfflujárn og samlokugrill loksins í sama vörugjaldaflokki. Hins vegar hefði sú einföldun sem vinna endurskoðunarhópsins átti að leiða til ekki alltaf skilað sér. Í því samhengi væri gott að horfa til sykurskattsins þar sem hún sagði hópinn hafa brotlent úti í skurði. Meðal annars hafi að endingu verið ákveðið að snúðar með súkkulaði bæru ekki vörugjöld, en það gerði aftur á móti súkkulaðikex. Sætar mjólkurvörur flokkist sem landbúnaðarvörur og beri því ekki vörugjöld, en morgunkornið beri slíkar álögur. Einnig hafi allt gos og kolsýrt vatn lent í þessari flokkun, jafnvel þótt það sé sykurlaust.
Sagði hún nauðsynlegt að einfalda þetta kerfi og ítrekaði það sem Samtök verslunar og þjónustu, Samtök iðnaðarins, Neytendasamtökin og Félag atvinnurekenda hafa lagt til og fella niður vörugjöld og færa slíka skattheimtu frekar yfir í hækkun á lægra virðisaukaskattsþrepi. Það myndi einfalda skattheimtuna til muna og koma í veg fyrir mismunun milli vissra vörutegunda.