Vísir og Þorbjörn í Grindavík hafa síðustu 12 ár rekið þurrkfyrirtæki til að nýta sjávarafurðir betur og fá hærra verð fyrir hvert veitt kíló. Með þátttöku fyrirtækja í sjávarklasanum eru uppi háleit markmið um að auka framleiðni um allt að 150% á næstu árum, en Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, segir ómögulegt að fara út í þá fjárfestingu sem nauðsynleg sé vegna veiðigjaldsins og hárra skatta.
Á fundi Samtaka atvinnulífsins í gær sagði Pétur að mikill árangur hefði náðst hér á landi í að auka nýtingu sjávarafurða. Á Íslandi segir hann nýtingarhlutfallið á milli 60 til 70%, sem geri það að verkum að hver 5 kílóa þorskur selst á um 2 þúsund krónur. Hjá samkeppnisþjóðum okkar fást um 1500 krónur fyrir sama fisk vegna verri nýtingar. Þetta bil fari stigminnkandi og að Íslendingar þurfi að bregðast við eigi að stemma stigum við þeirri þróun.
Samtals eru nú sjö fyrirtæki sem starfa saman undir merkjum Codlands fullvinnsluverkefnisins sem útgerðarfélögin tvö standa á bak við. Þau hafa staðið í ýmiskonar frumkvöðla- og fræðimannastarfsemi og gætu orðið mikilvægustu drifkraftar til aukinnar verðmætasköpunar í framtíðinni að mati Péturs. Má þar á meðal nefna framleiðslu á snyrtivörum, heilsufæði og lyfjum sem eru nokkuð ofar í virðiskeðjunni, en meðal annars er slógið notað í þessa framleiðslu.
Um mikla verðmætaaukningu er að ræða og segir Pétur í samtali við mbl.is að ef allt gangi upp geti þetta þýtt meira en hundrað milljarða á ársgrundvelli í aukna verðmætasköpun. „Með því að koma öllum þessum fyrirtækjum á sama stað er kominn grunnur á samstarf fyrir fullnustuklasa á sviði sjávarafurða. Miðað við markmið um að hægt verði að skapa verðmæti að andvirði 5 þúsund krónur fyrir hvert þorskkíló í stað 2 þúsund í dag, þá gæti þetta aukið verðmætasköpun hérlendis um 135 milljarða á ársgrundvelli.“
Áætlað er að um 500 milljónir þurfi á ári næstu 3 árin til að koma þessu verkefni af stað, en miðað við núverandi ástand segir Pétur að ómögulegt sé að fara þessa leið. Hingað til hafi eigið fé þurrkfyrirtækisins verið notað við fjármögnun verkefnisins, en meðan veiðigjaldið taki 3 milljarða úr greininni og í ofanálag tekur skatturinn stóran hluta af aukinni framleiðni.
„Framleiðniaukning af verkefninu er 3 þúsund krónur, en innbyggt í lögin að alveg sama hvort framleiðni er aukin með lækkun kostnaðar eða með því að hækka tekjur, þá muni ríkið taka tvo þriðju af því. Þannig að aðeins verður þúsundkall eftir af framleiðsluaukningunni og það dugar ekki til að fara í verkefnið,“ segir Pétur og því nokkuð ljóst að núverandi skattaumhverfi takmarkar mjög fjárfestingarverkefni sem fyrir hendi eru í þessari grein.
Lausn vandamálsins er að hans mati að leyfa greininni að stækka með aukinni framleiðni sem komi fram í auknum skatttekjum án þess að skattprósenta sé hækkuð. „Ef okkur tekst þetta verkefni þá munu koma miklir skattar út úr því. Leyfið okkur að búa til 3 þúsund kallinn og skattleggið hann eðlilega. Það er boðskapurinn.“