Starfsfólk flugfélagsins SAS fær viku til að ákveða hvort það gengur að skilmálum stjórnenda fyrirtækisins um launalækkanir. Lækkunin nemur um 15%. Stéttarfélag SAS-starfsmanna í Noregi tilkynnti í morgun að það samþykkti ekki þessar lækkanir.
Danskir starfsmenn SAS eru að skoða málið. Bente Sorgenfri formaður danska stéttarfélagsins, FTF, sem er meðal annars félag flugfreyja og -þjóna hjá SAS, segir í samtali við Politiken.dk að fundir verði haldnir í vikunni þar sem málið verður rætt og eftir það verði SAS tilkynnt um niðurstöðuna.
Sorgenfri dregur ekki dul á að henni þykir tillagan um launalækkunina ósanngjörn. „Mér sýnist að SAS hafi komið sér sjálft í þessa stöðu. Þar hafa slæmar viðskiptaákvarðanir verið teknar og sumar hafa ekkert með kjarnastarfsemina að gera,“ segir hún.