Hagnaður Vodafone jókst um 146 milljónir á fyrstu níu mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra og var 352 milljónir. Hagnaður af rekstri félagsins fyrir skatta og fjarmagnsliði (EBITDA) á fyrstu níu mánuðum ársins nam tæpum 2,2 milljörðum króna og hækkaði um 19% milli ára. Framlegð jókst á tímabilinu og nam 44%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Ómar Svavarsson, forstjóri Vodafone, er ánægður með niðurstöðurnar og segir þær vita á gott fyrir framtíðina, en félagið stefnir á skráningu í Kauphöllina á næstunni. „Rekstrarniðurstöður fyrstu níu mánaða ársins eru góðar. Þær eru umtalsvert betri en á sama tímabil í fyrra og árangurinn er umfram okkar eigin áætlanir á tímabilinu. Það eru vissulega gleðifréttir fyrir okkar starfsfólk, sem hefur lagt sig fram við að ná árangri í daglegum rekstri á sama tíma og mikil vinna hefur verið unnin vegna fyrirhugaðrar skráningar félagsins á hlutabréfamarkaðinn. Þessar niðurstöður eru gott veganesti inn í framtíðina.“